Frá vinstri; María Lilja Tryggvadóttir stjórnarmaður DÍS, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra, Linda Karen Gunnarsdóttir formaður DÍS, Ágúst ÓIafur Ágústsson stjórnarmaður DÍS. Í dag áttu fulltrúar DÍS fund með Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra þar sem staðan í málaflokki dýravelferðar var rædd ásamt áherslumálum sambandsins. Ráðherra fagnaði fundinum og benti hún á að dýravelferð verði í forgangi í hennar ráðherratíð sem DÍS fagnar. DÍS fjallaði um stöðuna á eftirliti með velferð búfjár sem er ekki viðunandi. Ráðherra benti á í því samhengi að stefnt sé að heildarendurskoðun dýravelferðarlaga í vetur sem er mjög jákvætt fyrir málaflokkinn. Einnig verði viðbrögð í haust við ákveðnum athugasemdum Ríkisendurskoðunar á eftirliti Matvælastofnunar með velferð búfjár. DÍS benti einnig á nauðsyn þess að dýr verði skilgreind sérstaklega í lögum um almannavarnir og að þeim sé bjargað strax og fólki hefur verið komið til bjargar í náttúruvá, í stað þess að björgun þeirra sé framkvæmd samkvæmt mati á verðmætum eins og nú er. Einnig benti DÍS á að skerpa verði á 7. gr. dýraverndarlaga um hjálparskyldu í þessu skyni, að tilgreint verði að dýrum sé bjargað með flutningum þegar aðstæður krefjast þess. Ráðherra tók vel í þessa tillögu og sagðist myndu fylgja henni eftir. Nefnd voru önnur mál án sérstakrar umræðu, verndun hvala, sela, refa og fugla á válistum ásamt blóðmerahaldi. Ráðherra var eindregið hvattur til að láta sig þessi mál sig varða og að tryggja að Ísland verði í fremstu röð í málefnum dýravelferðar. Dýraverndunarstöðin í Tungu. Tunga stóð efst á Laugaveginum, ská á móti Bolholti sem nú er. Á húsinu stendur: Dýraverndunarfélag Íslands hýsir hesta. Í dag fagnar Dýraverndarsamband Íslands (DÍS) 110 árum! Fyrir frumkvæði og þrautseigju dýravina var Dýraverndarsamband Íslands stofnað þann 13. júlí 1914. Sambandið hét í upphafi Dýraverndunarfélag Íslands. Saga DÍS er orðin löng og er mjög merk, en sambandið hefur náð mörgum áfangasigrum í þágu velferðar dýra hér á landi. Nefna má í því tilliti brýnasta verkefni Dýraverndunarfélagsins í upphafi sem var að koma á lögum um dýravernd. Tókst það árið 1915 fyrir tilstilli félagsins sem lagði fram frumvarp til laga sem var samþykkt á Alþingi og var mikill áfangi. Félagið hefur komið að lagabreytingum alla tíð síðan og segja má að saga dýraverndarlaga á Íslandi sé samofin sögu þess. Hér má kynna sér nánar sögu og áfangasigra Dýraverndarsambandsins í baráttunni fyrir bættri velferð dýra: Saga DÍS Stefnt er að því að halda afmælishátíð og málþing í nóvember til að fagna þessum merka áfanga sem verður auglýst nánar síðar. Stærsta hestamót hér á landi, Landsmót hestamanna, hefst í dag. Gjarnan er talað um að Landsmót sé uppskeruhátíð unnenda íslenska hestsins þar sem hundruð knapa keppa og sýna hross. Mót af þessari stærðargráðu er vissulega ánægjulegt fyrir mótshaldara, keppendur og áhorfendur. Hinsvegar er mikilvægt að ræða velferð hrossa í keppni og sýningum enda snýst mótið fyrst og fremst um þau. Sársaukahegðun hrossa Í nýlegri rannsókn J.W. Christensen og fl. (2024) var hegðun hrossa í keppni hér á landi skoðuð með áherslu á merki um sársauka eða óþægindi. Rannsakendur notuðust við myndbandsupptökur. Niðurstöður sýndu að hegðun sem bendir til að hrossum líði illa sé þó nokkuð algeng í keppni, sérstaklega þegar riðið er tölt (T1) eða skeið. Dæmi um hegðun sem bendir til sársauka hjá hrossum eru m.a. taglsláttur, teygð efri vör, hrossið opnar munninn ítrekað svo sést í tennur, það hristir höfuðið og hækkar eða lækkar höfuð í reið til að komast undan taumhaldi knapa. Rannsakendur benda á að þetta þurfi að rannsaka frekar en niðurstöður séu í samræmi við aðrar sambærilegar rannsóknir sem gerðar hafa verið í öðrum hestaíþróttum erlendis. Mikilvægt er að þessi mál séu skoðuð innan hestaíþróttarinnar og aukin áhersla verði á að gera sýningar og keppni hestvænni hér á landi. Undanfarin ár er t.d. orðið algengara að sjá hross í keppni með höfuðið þröngvað niður og að kverkinni þannig þau eiga erfitt með að draga andann eðlilega sem er óviðunandi. Það er nauðsynlegt að spornað sé við þessari þróun. Dýraverndarsamband Íslands vill benda á að sýningar og keppni á hestum á aldrei að vera á kostnað velferðar og heilsu þeirra. Hestvænni nálgun að minnka streitu hjá hrossum Því miður hefur skapast sú hefð á bæði hestamótum og reiðhallarsýningum að tónlist sé oft höfð há sem veldur hrossum streitu. Sumir þulir hvetja jafnvel áhorfendur til að fagna á meðan hrossin eru í braut, eins og að þenja bílflautur, klappa eða hrópa. Hross eru flóttadýr sem í eðli sínu forðast hávaða og hafa mun næmari heyrn en manneskjur. Hross upplifa því almennt streitu í slíkum aðstæðum en geta yfirleitt afborið þær séu þau undirbúin fyrir það. Hross geta hins vegar brugðist við t.d. með því að fælast, flýta sér eða missa einbeitingu sem þá leiðir til þess að knapar þurfa að taka fastar í tauminn en annars hefði þurft. Mélin í munni hestsins geta valdið sársauka í samræmi við þrýsting frá hönd knapans, frá óþægindum upp í nístandi sársauka, þar sem þrýstingur kemur frá málmi á tungu og kjálkabein sem er ákaflega viðkvæmt svæði. Með því að mótshaldarar stilli tónlist og fagnaðarlátum áhorfenda í hóf á meðan hestur er í braut má gera aðstæður sýningar- og keppnishrossa hestvænni. Dýraverndarsamband Íslands hvetur Landssamband hestamannafélaga að búa hrossum hestvænni aðstæður í sýningum og keppni með því að hávaða sé stillt í hóf á meðan hestar eru í braut. Stjórn DÍS |