Dýraverndarsamband Íslands (DÍS) mótmælir harðlega ótímabærri ákvörðun um hvalveiðar til næstu fimm ára. Í dag veitti Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og matvælaráðherra í starfsstjórn leyfi til veiða á langreyðum og hrefnum til næstu fimm ára. Dýrarverndarsamband Íslands hefur vegna þessa ákveðið að beina kvörtun til umboðsmanns Alþingis þar sem sambandið telur um hreina valdníðslu að ræða. Samkvæmt skráðum og óskráðum reglum stjórnskipunarréttar eru valdheimildir starfsstjórnar takmarkaðri en hefðbundinnar ríkisstjórnar. Starfsstjórn eftir lausnarbeiðni á ekki og má ekki, að mati DÍS, taka jafn afdrifaríka ákvörðun í hápólitísku deilumáli. Í bók Gunnars G. Schram um stjórnskipunarrétt segir m.a.: ,,Starfsstjórnin hefur í raun og veru fengið lausn en sér áfram að beiðni forseta um dagleg stjórnarstörf svo landið sé ekki með öllu stjórnlaust”. Þá segir að “ráðherrar gegni ekki lengur pólitísku hlutverki með sama hætti og sem regluleg ríkisstjórn”. Almennt er því talið að ráðherra sé ekki heimilt að taka mikilvægar pólitískar ákvarðanir nema þá að svo standi á að þær þoli enga bið. Slíkt er ekki um að ræða hér. Að mati DÍS blasir við að með þessari ákvörðun hefur settur matvælaráðherra í starfsstjórn farið út fyrir valdmörk sín með því að heimila hvalveiðar til næstu fimm ára. Til viðbótar telur sambandið að meðalhófsregla stjórnsýsluréttar hafi verið brotin með útgáfu leyfis til svo langs tíma. Þá má einnig minna á að skilyrði rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar hefur ekki verið fullnægt að mati DÍS. Beðið er niðurstöðu starfshóps forsætisráðherra um framtíð hvalveiða og slík veiðileyfi hafa gjarnan verið veitt á fyrsta ársfjórðungi á því upphafsári sem leyfið nær til en ekki í desember. Hvalveiðar eru ákaflega umdeilt mál á Íslandi og óánægjan með þær nær langt út fyrir landsteinanna. Þetta er því hagsmunamál sem varðar marga aðra en aðeins þá sem að þessum veiðum koma með einum eða öðrum hætti. Það er óboðleg stjórnsýsla að umboðslítill ráðherra taki svo afdrifaríka ákvörðun rétt eftir Alþingiskosningar og bindi þar með hendur næstu ríkisstjórna. Þessari stjórnsýslu verður ekki lýst öðruvísi en sem hneykslanlegri og staðfestist með henni sú spilling sem afhjúpuð var á dögunum um hrossakaup forsætisráðherra og aðstoðarmanns hans. Stjórn Dýraverndarsambands Íslands Yfirlýsing HRFÍ og DÍS vegna ákvörðunar Icelandair að hætta innflutningi gæludýra með farþegaflugi15/11/2024
Við, undirrituð hagsmunasamtök gæludýraeigenda og dýravelferðar, höfum þungar áhyggjur af ákvörðun Icelandair um að hætta að flytja gæludýr með farþegaflugi frá og með 1. nóvember 2024. Þessar breytingar skerða verulega möguleika gæludýraeigenda til að flytja dýr sín til og frá landinu. Afleiðingar þessara aðgerða hafa víðtæk áhrif á dýraeigendur, ræktendur og rekstur einangrunarstöðva, en allra mest á dýrið sjálft og velferð þess. Með þessari ákvörðun Icelandair er flutningur gæludýra til landsins verulega takmarkaður og er óraunhæfur kostur, þar sem dýr eru nú aðeins flutt með sérstöku cargo flugi aðeins frá einum flugvelli í Evrópu, Liege í Belgíu, og einum flugvelli í Bandaríkjunum, JFK í New York. Þetta fyrirkomulag er kostnaðarsamt, streituvaldandi og ótryggt fyrir dýrin sökum langra flutningsleiða á flugvöll og biðtíma þegar þangað er komið. Viljum við undirrituð leggja áherslu á að gæludýr teljast hluti fjölskyldunnar og þetta ástand getur gert það að verkum að fjölskyldur búsettar og/eða á ferðalagi erlendis með gæludýr sín sjá sér ekki fært að snúa aftur heim með þau. Jafnframt hefur þessi ákvörðun alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir ræktun og erfðafjölbreytni tegunda til framtíðar. Við skorum á Icelandair að endurskoða þessa ákvörðun og tryggja áframhaldandi mannúðlegan og hagkvæman möguleika á innflutningi gæludýra. Gæludýraeigendur þurfa að eiga raunhæfan valkost þegar kemur að flutningi ferfættra fjölskyldumeðlima sinna til landsins og þar liggur samfélagsleg ábyrgð Icelandair. Dýraverndarsamband Íslands (DÍS) Hundaræktarfélag Íslands (HRFÍ) Yfirlýsing DÍS og HRFÍ F.v. Sigurður Örn Hilmarsson (Sjálfstæðisflokkur), Þórunn Sveinbjarnardóttir (Samfylkingin), Rán Reynisdóttir (Sósíalistaflokkur Íslands), Heiðbrá Ólafsdóttir (Miðflokkurinn), Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir (Píratar), Aðalsteinn Leifsson (Viðreisn), Inga Sæland (Flokkur fólksins), Magnea Gná Jóhannsdóttir (Framsókn), Finnur Andrason (Vinstri grænir). DÍS stóð fyrir opnum fundi með fulltrúum stjórnmálaflokkanna fimmtudaginn 7. nóvember í Iðu bókakaffi. Fulltrúar flokkanna voru inntir já-nei svara um stefnu flokkanna varðandi hvalveiðar, blóðmerahald og búfjáreftirlit. Hvalveiðar Sex flokkar sem bjóða fram til Alþingis styðja að hvalveiðilögin frá 1949 verði numin úr gildi og hvalveiðar bannaðar með lögum. Það eru Samfylkingin, Sósíalistar, Flokkur fólksins, Píratar, Viðreisn og Vinstri græn, en þrír flokkar styðja ekki hvalveiðibann. Það eru Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Miðflokkurinn. Allir flokkar nema Framsókn og Miðflokkur studdu að ákvörðun um hugsanlegt hvalveiðileyfi ætti að bíða nýrrar ríkisstjórnar og verði ekki tekin af hálfu umboðslítillar starfsstjórnar en athygli vakti að fulltrúi Sjálfstæðisflokks sat hjá. Blóðmerahald Allir flokkar styðja að blóðmerahald verði bannað með löggjöf fyrir utan Framsókn og Miðflokkinn sem styðja það ekki og Sjálfstæðisflokkurinn sat sömuleiðis hjá varðandi blóðmerahaldið. Búfjáreftirlit Góðar umræður sköpuðust um löggjöf og eftirlit með dýravelferð. Athygli vekur að allir flokkar nema Miðflokkurinn styðja að eftirlit með velferð dýra verði aðskilið frá Matvælastofnun og komið fyrir hjá annarri stofnun eins og Dýraverndarsamband Íslands leggur áherslu á. Fram kom rík gagnrýni á núverandi fyrirkomulag eftirlits með dýravelferð frá vel flestum fulltrúum flokkanna á fundinum sem og vilji til að styðja mun betur við þá bændur sem missa tímabundna hæfni til að sinna bústörfum og sem bitnar gjarnan alvarlega á búfénaði. Þeir fulltrúar níu stjórnmálaflokka sem mættu voru: Flokkur fólksins - Inga Sæland oddviti í RS-kjördæmi Framsókn - Magnea Gná Jóhannsdóttir 3. sæti í RS-kjördæmi Miðflokkurinn - Heiðbrá Ólafsdóttir 2. sæti í S-kjördæmi Píratar - Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir oddviti í NV-kjördæmi Samfylkingin - Þórunn Sveinbjarnardóttir 3. sæti í SV-kjördæmi Sjálfstæðisflokkurinn - Sigurður Örn Hilmarsson 4. sæti RS-kjördæmi Sósíalistaflokkur Íslands - Rán Reynisdóttir oddviti í S-kjördæmi Viðreisn - Aðalsteinn Leifsson 3. sæti í RS-kjördæmi Vinstri grænir - Finnur Andrason oddviti í RN-kjördæmi Spurt var: Styður þú og flokkur þinn það að hin úreltu hvalveiðilög frá 1949 verði numin úr gildi og ný lög sett sem banni hvalveiðar við Ísland? Já: Samfylkingin, Sósíalistar, Píratar, Viðreisn, Flokkur fólksins, Vinstri grænir. Nei: Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkur og Framsóknarflokkurinn. Styður flokkurinn þinn að ákvörðun um hugsanlegt hvalveiðileyfi bíði nýrrar ríkisstjórnar en verði ekki tekin af hálfu umboðslítillar starfsstjórnar? Já: Samfylkingin, Sósíalistar, Píratar, Viðreisn, Flokkur fólksins, Vinstri grænir. Nei: Framsókn, Miðflokkurinn. Sjálfstæðisflokkur tekur ekki afstöðu. Styður flokkurinn þinn að sett verði löggjöf sem banni blóðmerahald á Íslandi? Já: Samfylkingin, Sósíalistar, Píratar, Viðreisn, Flokkur fólksins, Vinstri grænir. Nei: Framsókn, Miðflokkurinn. Sjálfstæðisflokkur tekur ekki afstöðu. Einnig komu spurningar úr sal og voru þessar eftirfarandi: Styðja ykkar flokkar að matvælaeftirlit verði á höndum einnar stofnunar og eftirlit með dýravelferð á höndum annarar? Já: Sjálfstæðisflokkur, Samfylkingin, Sósíalistar, Píratar, Viðreisn, Flokkur fólksins, Framsóknarflokkurinn, Vinstri grænir. Nei: Miðflokkurinn. Myndi ykkar flokkur styðja bann við loðdýraeldi? Já: Samfylkingin, Sósíalistar, Píratar, Viðreisn, Flokkur fólksins, Framsóknarflokkurinn, Vinstri grænir. Nei: Framsókn, Miðflokkurinn. Sjálfstæðisflokkur tekur ekki afstöðu. Fundarstjóri var Ágúst Ólafur Ágústsson lög- og hagfræðingur og stjórnarmaður í DÍS. Hér má horfa á fundinn í heild sinni: Dýraverndarsamband Íslands stendur fyrir pallborðsumræðum um dýravelferðarmál vegna komandi kosninga í Iðu Zimsen bókakaffi fimmtudaginn 7. nóvember kl 17:30. Stjórnmálaflokkunum hefur verið boðið að senda fulltrúa og verða spurðir spjörunum úr um brennandi málefni dýravelferðar. Gestir í sal hvattir til að taka virkan þátt. Fundinum verður streymt. Fundarstjóri verður Ágúst Ólafur Ágústsson lög- og hagfræðingur. Hér má skrá sig á viðburðinn: |