Sýnum metnað fyrir hafið - áskorun frá níu samtökum

2. júní 2025

Ísland getur sýnt raunverulegan metnað og ábyrgð við verndun hafsins – ekki bara hér við Ísland, heldur líka á úthöfunum sem við deilum með heiminum öllum. Þetta er kjarninn í eftirfarandi áskorun sem níu náttúru- og dýraverndarsamtök sendu ríkisstjórninni í aðdraganda hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.

Hafið hefur veitt okkur Íslendingum lífsbjörg frá upphafi byggðar. Það hefur nært okkur, skapað störf, og menningu í gegnum aldirnar. En hafið er ekki bara auðlind sem við nýtum, það er undirstaða alls lífs á jörðinni. Það stýrir veðurkerfum Jarðar, geymir kolefni, framleiðir súrefni og hýsir ótal lífverur sem halda vistkerfum gangandi.

Núna stöndum við frammi fyrir alvarlegum áskorunum þegar kemur að vistkerfum sjávar, bæði innan efnahagslögsögu Íslands og á alþjóðlegum hafsvæðum. Loftslagsbreytingar, súrnun sjávar, mengun, ofveiði og áhrif mannsins á lífríki hafsins hafa þegar valdið miklu tjóni. Áfram er unnið með hugmyndir að aukinni olíu- og gasvinnslu á hafsbotni og aukinn þrýstingur er á vinnslu jarðefna á djúpsævi. En það er ekki of seint að bregðast við.

Í desember 2022 samþykkti Ísland, ásamt 195 öðrum ríkjum, markmiðið um að hafa verndað að minnsta kosti 30% hafs og 30% lands fyrir árið 2030. Þetta er ekki bara markmið á blaði heldur nauðsynlegt skref til að tryggja heilbrigði Jarðar, endurheimta vistkerfi og tryggja fæðuöryggi og lífsviðurværi framtíðarinnar. Ísland hefur friðað um 24% af landsvæði sínu en eingöngu 0,07% efnahagslögsögunnar. Fjölmargt í náttúru og lífríki hafsins umhverfis landið ber okkur þó að vernda, svo sem kóralrif og sæfjaðragarða, þaraskóga og þörungabreiður, og neðansjávarfjöll- og hryggi. En Ísland hefur enn tækifæri til að verða leiðandi afl, því margt hefur verið vel gert t.d. við veiðistjórn og rannsóknir og þá vinnu mável nýta til átaks um friðlýsingar í hafi. Til þess þarf skýra pólitíska sýn og metnað til að sýna í verki að við tökum ábyrgð okkar alvarlega.

Á opnum fundi fyrr í þessari viku, sem haldinn var á vegum undirritaðra náttúruverndarsamtaka sagði Max Bello, virtur sérfræðingur á sviði verndarsvæða í hafi, að sífellt fleiri lönd í heiminum séu farin að leggja aukna og verulega áherslu á verndun hafsins og að það sé ekki einungis gott fyrir umhverfið, heldur líka fyrir efnahaginn. „Með því að gefa hafinu tíma til að jafna sig á mikilvægum svæðum skapast keðjuverkandi áhrif út fyrir þessi svæði þegar vistkerfin ná sér á strik, sem getur komið sjómönnum og öðrum til góða”.

Við skorum á ríkisstjórn Íslands að grípa tækifærið á Hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (UNOC) í Nice í næstu viku (9-13 júní 2025). Þar er möguleiki að sýna raunverulegan metnað og ábyrgð við verndun hafsins – ekki bara hér við Ísland, heldur líka á úthöfunum sem við deilum með heiminum öllum.

Við hvetjum ykkur til að:

  • Ísland lýsi því yfir á UNOC í Nice að landið muni eins fljótt og auðið verður fullgilda Samning Sameinuðu þjóðanna um verndun og sjálfbæra nýtingu líffræðilegrar fjölbreytni á hafsvæðum utan 200 mílna efnahagslögsögu ríkja (BBNJ).

  • Koma fram með skýra og metnaðarfulla áætlun um hvernig Ísland ætlar að vernda a.m.k. 30 prósent af 200 mílna efnahagslögsögu landsins fyrir árið 2030 með stóran hluta fullverndaðan.

  • Vinna með frjálsum félagasamtökum til að þessi vinna skili árangri.

  • Að Ísland tali skýrri röddu fyrir vernd sjávar á alþjóðavettvangi – þetta getum við til dæmis gert með því að deila þekkingu sem við höfum um hafið.

Við hlökkum til að sjá ríkisstjórn Íslands stíga skrefið til fulls og sýna í verki að Ísland ætlar að vera á meðal þeirra þjóða sem taka verndun hafsins alvarlega.

Vinsamlegast,

Dýraverndarsamband Íslands
Náttúruverndarsamtök Íslands
Landvernd
Hvalavinir – Vernd hafsins
Ungir umhverfissinnar
Verndarsjóður villtra laxastofna (NASF)
Íslenski náttúruverndarsjóðurinn
AEGIS
SOA Iceland

Previous
Previous

Áskorun til umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að verja lundastofninn

Next
Next

Ábyrgt kattahald - hvatning til kattaeigenda á varptíma fugla