Alþjóðadagur dýranna

4. október 2025

Alþjóðadagur dýranna er haldinn árlega þann 4. október þar sem velferð og réttindum dýra er fagnað. Dagurinn hefur einnig verið kallaður alþjóðadagur dýravelferðar þar sem vakin athygli á þörfinni fyrir áframhaldandi baráttu fyrir réttindum dýra um allan heim.

Alþjóðadagur dýranna hefur þann tilgang að auka vitund og þekkingu um velferð og vernd dýra, en jafnframt að dýr séu viðurkennd sem skyni gæddar verur með hugsanir og tilfinningar sem hafi sinn einstaka persónuleika sem einstaklingar.

Alþjóðadagur dýranna fagnar 100 árum

Deginum var fyrst fagnað þann 24. mars árið 1925 í Sportpalast íþróttahöllinni í Berlín þar sem yfir 5.000 manns tóku þátt. Viðburðurinn var skipulagður af dýrafræðingnum Heinrich Zimmermann til að vekja athygli á velferð dýra.

Þótt viðburðurinn hefði upprunalega átt að fara fram þann 4. október á hátíðisdegi Frans frá Assisi, verndardýrlingi dýra og náttúru í kaþólskri trú, var íþróttahöllin ekki í boði þann dag sem leiddi til þess að dagurinn fór fram í mars. Hátíðin var síðar færð til 4. október árið 1929 og hlaut dagurinn alþjóðlega viðurkenningu árið 1931.

Góður árangur hefur náðst til bætingar í þágu dýra síðan 1925, en það er enn mikið verk fyrir höndum og eru verkefnin óþrjótandi um allan heim.

Leggðu dýrunum lið

Dýraverndarsambandið hefur barist fyrir bættri velferð dýra á Íslandi síðan 1914 og hefur starfsemi félagsins verið vaxandi undanfarin ár. Við vonum að sem flestir taki þátt með okkur að móta framtíð þar sem dýr eru virt og vernduð.

Það er auðvelt að gerast félagi í DÍS og leggja dýrunum lið. Vertu með!

Gerast félagi
Next
Next

Fundur DÍS með umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra