Fundur DÍS með umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra

26. september 2025

Dýraverndarsambandið átti fund fimmtudaginn 25. september með Jóhanni Páli Jóhannssyni umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra til að ræða málefni villtra dýra.

Hafverndarsvæði við Ísland
Í desember 2022 samþykkti Ísland, ásamt 195 öðrum ríkjum, markmiðið um að hafa verndað að minnsta kosti 30% hafs og 30% lands fyrir árið 2030 og hefur ráðherra þegar hafið máls á mikilvægi þessa opinberlega.

DÍS hvatti til þess að flóar og firðir kringum landið yrðu gerðir að hafverndarsvæðum, 12 mílur út frá landi og benti á að eftirlit yrði jafnframt erfitt ef skilgreind hafverndarsvæði yrðu langt út á hafi.

Málefni sjávardýra

DÍS minnti á nauðsyn þess að hvalveiðar yrðu aflagðar hér við land og að skoða þyrfti málefni sela, bæði stofn útsels og þá stofn landssels sérstaklega væru búnir að minnka verulega undanfarna áratugi og á válista. Veiðar á sel eru bannaðar en þó sé mögulegt að óska eftir sérstöku veiðileyfi hjá Fiskistofu. DÍS benti á að nauðsynlegt sé að banna veiðar á sel alfarið.

Málefni refa og hreindýra
Veiðar á ref voru einnig ræddar og þær ómannúðlegu aðferðir sem heimilar eru við drápin. Veiðar á ref hafi átt uppruna sinn í því að verja nýborin lömb en nú ber sauðfé innanhúss en ekki utandyra eins og áður var og lítið orðið um ábendingar um dýrbit af völdum refs. DÍS óskaði eftir að veiðar á ref verði endurskoðaðar og tók ráðherra vel í að skoða málefni þessara dýra.

Málefni hreindýra voru einnig rædd og benti DÍS á að mikilvægt sé að veiðitímabil á hreindýrum, ekki síst kvígum, verði fært aftar eða til 1. september eins og gerist í Noregi. Ráðherra benti á að Náttúruverndarstofnun sé nú að ráðast í gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir hreindýrastofninn þar sem veiðitímabilin verði einnig skoðuð. DÍS fagnar því og hefur jafnframt verið boðin aðkoma að gerð áætlunarinnar.

Málefni villtra fugla
Einnig voru málefni villtra fugla rædd og lýsti DÍS yfir áhyggjum af þeim veiðiaðferðum sem notaðar eru við veiðar á andfuglum sem þurfi að skoða, fuglarnir séu í einhverjum tilfellum fóðraðir af hálfu fuglaveiðimanna og síðan drepnir tugum saman á blóðvelli. Einnig fjallaði DÍS um drekkingar á mink sem nauðsynlegt er að banna með lögum, en slík aðferð við veiðar á mink er heimil skv. lögum um velferð dýra sem er óviðunandi.

Ráðherra tók vel í að skoða þær tillögur DÍS sem komu fram á fundinum. Ráðherra benti jafnframt á að villidýralögin (nr. 1994/64) verði skoðuð hjá ráðuneytinu næstu misseri og að sérstaklega yrði skoðað að fella seli undir reglugerðina sem DÍS fagnar.

Til baka

Next
Next

Eurogroup for Animals sendir erindi til fagráðs um velferð dýra