DÍS hvetur til minni neyslu á dýraafurðum vegna þauleldis dýra - ályktun aðalfundar 2025
12. september 2025
Undanfarna áratugi hefur orðið sú þróun að matvælaframleiðsla sé verksmiðjuvædd til að framleiða sem mestar afurðir fyrir sem minnstan tilkostnað. Búskapur með dýr hefur ekki verið þessu undanskilinn með hörmulegum afleiðingum fyrir dýr um allan heim og á Íslandi. Nú byggist svína- og hænsarækt að mestu á því að dýrin séu einingar í verksmiðju þar sem velferð, þarfir og eðli dýranna er virt að vettugi til að hámarka nytjar þeirra. Sama þróun er að eiga sér stað í nautgriparækt.
Öll helstu dýravelferðarsamtök sem eru leiðandi á alþjóðavísu hvetja til þess að fólk dragi úr eða hætti alfarið neyslu á dýraafurðum með það í huga að afleggja verksmiðjubúskap með dýr.
Dýraverndarsamband Íslands tekur undir þá hvatningu og mun stíga það mikilvæga skref að hvetja almenning til að minnka eða hætta neyslu á dýraafurðum í því skyni að verksmiðjubúskapur leggist af hér á landi með fræðslu og málefnalegri umræðu.
Framangreind ályktun var samþykkt á aðalfundi Dýraverndarsambands Íslands,
14. maí 2025.