Ingunnar Einarsdóttur frumkvöðuls í dýravernd minnst

F.v. Halla Tómasdóttir forseti Íslands, Linda Karen Gunnarsdóttir formaður DÍS, Ágúst Ólafur Ágústsson og María Lilja Tryggvadóttir stjórnarmenn í DÍS. Ljósm. Lisa Nowinski.

28. september 2025

Í gær var Ingunnar Einarsdóttur, frumkvöðuls í dýravernd minnst í Hólavallagarði, en 175 ár voru komin frá fæðingu hennar. Dýraverndarsambandið setti upp upplýsingaskilti við leiði hennar að þessu tilefni í samstarfi við Kvennaár og Kirkjugarða Reykjavíkur. Halla Tómasdóttir forseti Íslands flutti ávarp við athöfnina. Söngkonurnar Helga Margrét Clarke og Gunnur Arndís Halldórsdóttir fluttu fallega tónlist.

Ingunn Einarsdóttir átti ríkan þátt í að koma á umbótum í þágu dýra á upphafsárum dýraverndar á Íslandi. Hún var einn helsti hvatamaður að stofnun Dýraverndunarfélags Íslands árið 1914 sem nú ber nafnið Dýraverndarsamband Íslands. Einnig hvatti hún til þess að félagið gæfi út blaðið Dýraverndarinn sem kom út óslitið 1915-1983. Eitt af baráttumálum Ingunnar var að félagið opnaði skýli fyrir aðkomuhesta í Reykjavík, Dýraverndunarstöðina, sem varð vísir að fyrsta dýraathvarfi og dýraspítala landsins.

Við hjá Dýraverndarsambandi Íslands minnumst Ingunnar Einarsdóttur með hlýju. Fyrir hennar góða og óeigingjarna starf reis félag sem nú hefur starfað óslitið í 111 ár í þágu bættrar velferðar dýra.

Megi minning þessarar góðu hvatakonu dýraverndarstarfs á Íslandi lifa um ókomin ár.

Previous
Previous

Dýr skortir aðgang að réttlætinu - ályktun aðalfundar DÍS 2025

Next
Next

Upplýsingaskilti vígt við leiði Ingunnar Einarsdóttur, frumkvöðuls í dýravernd