Dýr skortir aðgang að réttlætinu - ályktun aðalfundar DÍS 2025
3. september 2025
Dýraverndarsamband Íslands telur mikið skorta á aðgang að réttlæti fyrir hönd dýra á Íslandi.
Möguleiki félagasamtaka til að vera málsvarar dýra er takmarkaður eða enginn. Dýraverndarsamband Íslands og Náttúruverndarsamtök Íslands lentu nýverið bæði í því að umboðsmaður Alþingis vísaði frá kvörtunum þeirra vegna útgáfu hvalveiðileyfa þar sem ákvörðunin snerti „ekki beinlínis hagsmuni eða réttindi samtakanna“.
Það er mikilvægt að almenningur og félagasamtök hafi skýr úrræði til að leita réttlætis fyrir hönd dýra á Íslandi. Dýraverndarsamband Íslands skorar á stjórnvöld að bæta úr þessu réttindaleysi við endurskoðun laga sem tengjast réttindum dýra og tryggja að samtök á sviði dýravelferðar hafi skýrar heimildir til að kalla eftir upplýsingum og kæra ákvarðanir sem snerta velferð dýra.
Framangreind ályktun var samþykkt á aðalfundi Dýraverndarsambands Íslands, 14. maí 2025.