Dýraverndarsambandi Íslands (DÍS) hefur borist ábending um búfénað í alvarlegum vanhöldum í Skagafirði. Tilkynningin var send til DÍS þar sem svo virðist sem Matvælastofnun (MAST) hafi ekki brugðist við fyrri tilkynningum um ástand og aðbúnað þessara dýra. DÍS hefur séð myndir og er ástand og aðbúnaður dýranna sem um ræðir mjög slæmt. Búfénaður er horaður og stendur skítugur í mykju upp að hnjám. Það var örþrifaráð tilkynnanda að hafa samband við DÍS vegna ástandsins og lýsa þessum aðbúnaði dýranna, í von um að það verði til þess að hreyfa við málinu. DÍS hafði samband við Matvælastofnun í síðustu viku vegna málsins og óskaði tafarlausra úrbóta. Svör stofnunarinnar voru þau að farið hefði verið í eftirlit á þessum stað í nóvember sl. vegna ábendingar. Þá hafi engin frávik verið skráð varðandi aðbúnað dýranna. Sú ábending sem send hefur verið til DÍS á hins vegar við um aðbúnað dýranna viku eftir þá eftirlitsheimsókn MAST. Aðbúnaður dýranna var einnig metinn án frávika í byrjun desember þegar MAST fór í aðra eftirlitsheimsókn. Dýrahald eins og lýst er hér á engan rétt á sér. Matvælastofnun er sú stofnun á Íslandi sem lögum samkvæmt ber að sjá til þess að farið sé að lögum um velferð dýra. Dýraverndarsamband Íslands fer fram á tafarlausar aðgerðir af hálfu yfirvalda í málinu. DÍS fundaði nýverið annars vegar með Matvælaráðuneytinu og hins vegar Bændasamtökum Íslands um stöðuna í dýravelferðarmálum. Eins og fram hefur komið sendi DÍS fyrirspurn á Matvælastofnun (MAST) þann 8. nóvember varðandi dýr í neyð í Borgarbyggð. Þar sem svör MAST bárust fyrst þann 15. nóvember og um var að ræða dýr í neyð ákvað DÍS í millitiðinni, áður en bar til nokkurra frekari tíðinda í málinu, að leita samráðs við Matvælaráðuneyti og Bændasamtök Íslands. Fundirnir voru haldnir til að ræða þá stöðu sem upp er komin í málefnum dýravelferðar og leita leiða til lausnar. DÍS bindur vonir við úttekt Ríkisendurskoðunar á eftirliti MAST með velferð dýra. Sambandið er samhliða að vinna úttekt af reynslu af búfjáreftirliti MAST. Hægt er að senda ábendingar á abending@dyravernd.is. Stjórn DÍS |