Eftirfarandi umsögn var send til Alþingis frá stjórn DÍS 17. janúar 2022, skv umsagnarbeiðni. Umsögnin var unnin og samþykkt af stjórn DÍS að venju. Það er áríðandi að velferð dýra sé höfð í öndvegi við alla meðferð á þeim og sérlega áríðandi þegar um er að ræða ífarandi aðgerðir:
Umsögn Dýraverndarsambands Íslands, blóðtaka úr stóðhryssum, 15. mál, 152. löggjafarþing, umsagnarbeiðni 11637 Dýraverndarsamband Íslands tekur afstöðu til dýrahalds á grundvelli velferðar dýranna. Velferð dýra telst ógnað þegar lágmarksviðmiðmum laga um velferð dýra (55/2013) er ekki náð og miðast við að dýr séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma sem skyni gæddar verur og að þau geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt. Stóðhrossahald: Stóðhrossahald telst sem slíkt að mati DÍS við eðlilegar forsendur almennt halda þessi viðmið á Íslandi, hrossin eru haldin úti við við náttúrulegar aðstæður sem þeim eru eðlislægar enda hánorræn hestategund með uppruna frá mun kaldari svæðum en á Íslandi. Hrossin fá að fjölga sér á náttúrulegan hátt miðað við sitt eðli og árstíðir. Stóðhrossin geta þannig í sínu náttúrulega umhverfi sýnt eðlislægt atferli sem félagsdýr í stöðugum aðstæðum innan hóps þar sem hrossin þekkjast. Eðlilegar forsendur eru að hrossin búi við góðan aðbúnað, skjól- og landrými, aðgang að góðu vatni og nægri beit árið um kring, en fái útigjöf við jarðbönn. Við þær aðstæður er líklegt að hross séu það búfé sem býr við hvað bestan kost á Íslandi miðað við áðurtalin viðmið um velferð. Meðferð hrossa: Öll hross þurfa að vera sem kallað er bandvön til að geta þolað með góðu móti að vera tekin í tökubása, sem er nauðsynlegt út frá velferð m.a vegna hófhirðu, ormalyfjagjafar, sónarskoðunar o.fl. Hryssur sem tekið er blóð þurfa með sama hætti og önnur hross að ráða við að fara í slíka tökubása án þess að fyllast meiri ótta eða streitu en eðlilegt er við annríki og nauðsynlegt er að þeim sé kennt það án ofbeldis. Aðbúnaður og aðstæður þurfa að vera miðuð við slysahættu og velferð. Aðfarir manna þurfa að vera hófstilltar og hryssunum sýnd virðing, tillitssemi og ábyrgð. Þetta eru almenn viðmið lágmarksvelferðar í meðferð hrossa og annars búfjár. Blóðtaka: blóðtakan hefur verið stunduð hér á landi í áratugi en engar óháðar, rýndar rannsóknir eru til um blóðtöku úr fyljuðum hryssum við stóðhrossahald. DÍS fordæmir harðlega að slík blóðtaka sé stunduð án þess að fyrir liggi ítarleg rannsókn á velferð hryssanna og folalda þeirra og telur ótækt að miða við rannsóknir á öðrum dýrum en hryssunum sjálfum og við þær aðstæður sem blóðið er tekið. Umsögn: DÍS telur eðlilegt að miða við eftirfarandi kröfur: 1. Að stóðhrossahald miðist við landgæði og aðstæður, bjargráð séu fyrir hendi og óháð eftirlit. 2. Að hross sem höndlað er með hvort sem það er árið um kring eða nokkrum sinnum á ári séu hið minnsta bandvön og kunni að fara í tökubása án verulegs ótta eða streitu. Áskilin er nærgætin nálgun manna og jákvæð skilyrðing fremur en neikvæð. 3. DÍS gerir skýlausa kröfu um, ef blóðtaka verður ekki bönnuð, að óháð og rýnd rannsókn verði án tafa gerð á velferð hryssa strax við næstu blóðtöku. Áskilið er að enginn vafi verði á að velferð hryssanna sé ekki ógnað með blóðtöku enda verði hún annars bönnuð. Vegna þess hvað blóðtaka er djúpt inngrip í líkama dýra þarf slík rannsókn að miðast einnig við atferli og framgang hryssanna og folalda þeirra en ekki aðeins blóðgildi. Jafnframt telur DÍS nauðsynlegt af sömu ástæðum að blóðtakan sé tekin upp á myndbönd sem eru tiltæk eftirlitsaðilum, svo og rekstur að og slepping frá tökubásum. Óháð eftirlit þarf að vera til staðar. Loks telur DÍS nauðsynlegt að viðeigandi ákvæði verði sett í lög um velferð dýra sem geri kleift að setja ítarlega reglugerð um þennan tiltekna búskap ef hann verður leyfður, þar eð um ífarandi aðgerðir er að ræða. Unnið og samþykkt af stjórn DÍS 17. janúar 2022 f.h. DÍS, Hallgerður Hauksdóttir formaður Hér er hlekkur umsögnina á vef Alþingis ![]() Staðan nú: Því miður verður ekki unnt að halda aðalfund hjá félaginu fyrr en ástæður leyfa vegna covid-19. Við bindum nú vonir við að það geti orðið fyrir vorið miðað við síðustu upplýsingar frá sóttvarnaryfirvöldum. Síðast var haldinn aðalfundur árið 2018, aðalfundurinn féll niður árið 2019 vegna flutninga í annað húsnæði og misstum við fastan starfsmann okkar á sama tíma er hún varð frá að hverfa vegna veikinda. Hefur covid-ástandið og afleidd staða síðan þá hindrað að hægt sé að kalla fólk saman til aðalfundar. Slík hlé á aðalfundum eru ekki óþekkt í yfir aldalangri sögu félagsins, en ýmsar aðstæður geta komið upp sem gera að verkum að þeir falli niður og síðast varð slíkt hlé frá 2010 til 2012 í tíð þáverandi stjórnar. Starfsemi DÍS hefur verið að einhverju leyti skert í þessu covid-ástandi, til dæmis hvað það varðar að halda félagafundi, opin hús eða málþing o.fl. Stjórn DÍS starfar þó áfram og heldur á málefnum félagsins. Stjórnin styðst við verklagsreglur sem hafa verið í gildi árum saman og því er engin breyting á starfsemi félagsins þótt aðalfundir hafi fallið niður. Við hörmum þetta ástand og bíðum þess að gott færi gefist til að halda aðalfund. Almennar upplýsingar: Starfsemi DÍS byggir á því að stjórn félagsins er falið að annast stefnu- og málefnavinnu félagsins. Stjórnin má ráða starfsmann til að sjá um daglegan rekstur og praktísk mál. Stjórnarmenn þiggja ekki og hafa ekki þegið laun fyrir stjórnarstörf í tíð núverandi stjórnarmanna sem hafa lengst starfað allt frá árinu 2012. Greitt er fyrir vinnu sem snýr að rekstri félagsins og praktískum málum. Sem stendur er félagið ekki með neinn fastan starfsmann og í þeirri stöðu einskorðast starfsemi félagsins mikið til við ólaunuð störf stjórnar sem er að sinna dýravelferðarmálum á félagslegum grunni og stefnu félagsins. Stundum eru fólk fengið tímabundið til starfa til dæmis til þrifa, viðgerða eða bókhaldsvinnu o.fl.þ.h. og þá greitt fyrir þau störf. Stundum hafa stjórnarmenn að ósk stjórnar og undir umsjón stjórnar tekið að sér einstök slík störf og er það þá flokkað sem vinna fyrir félagið en ekki ólaunuð sjálfboðvinna eins og við stjórnarstörfin. Það er framtíðarstefna félagsins að hafa fastan starfskraft. Því miður verður ekki hægt að halda viðburði eða setja stefnu á málþing eða opin hús fyrr en covid-ástandið er að baki. Formaður félagsins er talsmaður stjórnarinnar og greinir frá stefnu félagsins eins og hún er samþykkt á stjórnarfundum hverju sinni, en öll stjórnin kemur að þeirri stefnuvinnu. Ekkert efni er sent frá félaginu sem ekki byggir á slíkri sameiginlegri vinnu eða fyrri samþykktum. Vinnureglan er að öll stjórn eru boðuð á fund og stjórnin vinnur efnið saman þar til allir stjórnarmenn eru sáttir við niðurstöðu. Stjórnarfólk DÍS er staðsett víða um landið og tveir erlendis en fundir eru haldnir með fjarfundarbúnaði svo allir geti mætt. Hefur samstarfið gengið mjög vel hjá þessari stjórn sem er almennt samstíga. Stjórnin þarf ætíð að feta þrönga slóð þegar kemur að því að greiða fyrir vinnu hjá félagi sem nýtur engra styrkja. Hvorki félagið sem slíkt né stjórn þess eða einstakir stjórnarmenn né formaður njóta neinna fastra eða tilfallandi styrkja í neinni mynd, hvorki frá ríki, sveitafélögum, öðrum opinberum stofnunum, ekki heldur frá fyrirtækjum né öðrum félagasamtökum eða hagsmunasamtökum. Engin dæmi er að finna um slíka eða aðra álíka styrki eða framlag til DÍS í sögu þessarar stjórnar. Eina innkoma félagsins er er því félagsgjöld og svo 1000-3000 króna mánaðarlegir styrkir frá nokkrum einstaklingum. Innkoman þarf að standa undir rekstri á húsnæði félagsins og ýmsum gjöldum, rekstri heimasíðu o.fl. og svo því að ráða fólk í einstök verkefni og vinnu fyrir félagið að framfylgd stefnu þess. Félagið er yfir aldargamalt og hefur staðið af sér allskyns tíma í sögu Íslands, engin ástæða er til að ætla annað en að það starfi áfram eðlilega eftir að covid-ástandinu lýkur. Við vonum að fólk geti sýnt þessu skilning og eins og áður segir þá starfar stjórnin áfram og heldur við stýrið á siglingu félagsins. Reikningar fyrir félagsgjöld verða sendir út til félagsfólks DÍS þegar fyrir dyrum stendur að halda aðalfund. Við vonum öll að þessu ástandi linni sem fyrst. Kær kveðja frá stjórn DÍS. |
DÝRAVERNDARSAMBAND ÍSLANDS | GRENSÁSVEGI 8, 4. HÆÐ (gengið inn að aftan),108 REYKJAVÍK | SÍMI 552-3044 | DYRAVERND@DYRAVERND.IS