Bæta þarf eftirlit með velferð dýra - ályktun aðalfundar DÍS 2025
9. september 2025
Dýraverndarsamband Íslands skorar á nýja ríkisstjórn að stórbæta eftirlit með dýravelferð í landinu. Það er flestum ljóst að öflugt eftirlit með dýravelferð hentar engan veginn Matvælastofnun (MAST). Síendurtekið berast fréttir af slælegum viðbrögðum MAST þegar kemur að eftirliti með velferð dýra.
Það er óeðlilegt að málefni dýravelferðar og dýraverndar heyri nú undir stofnun sem hefur það meginhlutverk að gæta að matvælaframleiðslu. Því miður sýnir reynslan að dýravelferð virðist mæta afgangi hjá MAST og ítrekað metur stofnunin það svo að dýr séu ekki að þjást eða í neyð í þeim alvarlegu málum sem komið hafa upp undanfarin ár og verið fjallað um í fjölmiðlum.
Síðastliðin áramót tók til starfa ný stofnun, Náttúruverndarstofnun sem m.a. hefur það hlutverk að vernda lífríki og hlúa að vernd villtra fugla og villtra spendýra. DÍS hvetur því nýja ríkisstjórn til að færa málefni dýraeftirlits frá MAST og undir þá stofnun.
Jafnframt er ríkisstjórnin hvött til að leyfisskylda allt búfjárhald og tryggja skilvirkari inngrip þegar velferð dýra er í húfi.
Með þessum breytingum væri ný ríkisstjórn að senda sterk skilaboð að málefni dýraverndar og dýravelferðar væru tekin alvarlega og væru hluti af forgangsmálum nýrrar stjórnar í takt við nýja tíma.
Framangreind ályktun var samþykkt á aðalfundi Dýraverndarsambands Íslands,
14. maí 2025.