Viðurkenning fyrir hetjulega framgöngu í þágu dýra í neyð 

21. maí 2025

Það vakti gríðarlega athygli og reiði í samfélaginu þegar myndbönd birtust af illri meðferð á folaldi í febrúar. Myndbandið tók einstaklingur sem fyrst um sinn kaus að njóta nafnleyndar. Hún varð vitni að því þegar hrossaræktandi reyndi að setja múl á folald sem streittist á móti. Frekar en að nálgast folaldið rólega og gefa því tíma ákvað ræktandinn að binda reipi utan um háls þess til að koma múlnum á þannig að þrengdi að öndunarvegi folaldsins.

Sú sem tók myndbandið átti erfitt með að fá yfirvöld til að grípa inn í málið, fyrst hringdi hún í Matvælastofnun og var vísað á tilkynningaform á heimasíðunni, en síðan hafði hún samband við lögreglu. Þessi atburðarás er skýrt dæmi um þá vankanta sem DÍS hefur lengi bent á, að MAST og önnur stjórnvöld bregðist allt of seint og illa við þegar dýr eru í neyð.

En þetta er líka dæmi um það hversu mikilvægt hugrekki einstaklinga er – það er ómetanlegt þegar fólk stígur fram með þessum hætti til varnar dýrunum. Fréttaflutningurinn sem fylgdi í kjölfar birtingar myndbandsins varð til þess að fjöldi fagfélaga fordæmdu athæfið og atvinnuvegaráðherra boðaði endurskoðun á verkferlum varðandi tilkynningar um dýraníð til lögreglu – þó ekki sé komin endanleg niðurstaða þar.

Það er Dýraverndarsambandi Íslands sannur heiður að veita Vilborgu Pálu Kristjánsdóttur sérstaka viðurkenningu fyrir hetjulega framgöngu í þágu dýra í neyð.

Til baka

Next
Next

Dýraverndari ársins 2024