Stjórn DÍS átti fund með Matvælastofnun (MAST) mánudaginn 22. maí vegna tveggja dýravelferðarmála sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum að undanförnu og skorts á viðbrögðum frá stofnuninni, sérstaklega hvað varðar að forða dýrum sem eru í neyð. Hér er verið að vísa í slæman aðbúnað sauðfjár á Höfða í Þverárhlíð og slæman aðbúnað hrossa í Arnarfirði. Áhersla var lögð á tafarlausar úrbætur og breytt verklag í eftirliti með velferð dýra. Á fundinum lýsti MAST yfir áhuga á að vinna að gerð fræðsluefnis í samvinnu við DÍS. Áætlaður er fundur í haust vegna þess. Í byrjun júní er áformaður annar fundur með stofnuninni um búfjáreftirlitið og áður framkomnar tillögur DÍS um uppstokkun á dýraeftirlitinu byggðar á ítarlegri úttekt DÍS. Því verður svo fylgt frekar eftir við Matvælaráðuneytið. Þann 19. maí sl. rann út frestur fyrir fullgilda félaga í DÍS að bjóða sig fram til stjórnarsetu í félaginu. Þau sæti sem kosið skal um á komandi aðalfundi þann 25.05 eru sæti formanns og tveggja meðstjórnenda, til tveggja ára. Eftirfarandi framboð bárust til stjórnarsetu í DÍS. Sitjandi stjórnarmenn gáfu á kost á sér að sitja áfram. Framboð í sæti formanns til tveggja ára Linda Karen Gunnarsdóttir Framboð í sæti meðstjórnanda til tveggja ára Anna Berg Samúelsdóttir Framboð í sæti meðstjórnanda til tveggja ára Liselotte Widing Þann 19. maí rann einnig út frestur fyrir fullgilda félaga að senda inn lagabreytingartillögur. Eftirfarandi lagabreytingartillögur bárust frá stjórn DÍS - sjá hér. Við hvetjum félaga til að mæta á aðalfundinn fimmtudaginn 25.05 kl 17 og hafa áhrif á störf DÍS. Stjórn DÍS Aðalfundur Dýraverndarsambands Íslands (DÍS) verður haldinn fimmtudaginn 25. maí kl 17-19:00 í húsnæði félagsins að Grensásvegi 8 (gengið inn að aftan og farið upp á 4 hæð m. lyftu), 108 Reykjavík. Húsið opnar 16:30. Ágúst Ólafur Ágústsson lög- og hagfræðingur mun kynna niðurstöður úttektarinnar sem hann vann fyrir DÍS og flutti á málþingi félagsins í mars, Bætt dýravelferð - staða og tillögur til úrbóta. Dýraverndari ársins Á aðalfundinum verður veitt viðurkenning DÍS, Dýraverndari ársins. Viðurkenningin er veitt fyrir ötult starf í þágu velferðar dýra. Dýraverndari ársins er Steinunn Árnadóttir sem með ötulu starfi sínu og hugrekki vakti athygli á vanrækslu dýra í Borgarbyggð sl. haust og nú nýverið á Vestfjörðum. Dagskrá aðalfundar DÍS 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara 2. Ársskýrsla stjórnar 3. Bætt dýravelferð - Ágúst Ólafur Ágústsson 4. Ársreikningar lagðir fram til samþykktar 5. Lagabreytingatillögur 6. Kaffihlé 7. Nýtt merki DÍS til samþykktar 8. Dýraverndari ársins 2022 9. Kjör formanns 10. Kjör annarra stjórnarmanna 11. Kjör skoðunarmanns reikninga úr hópi annarra en stjórnarmanna 12. Félagsgjöld og nýir félagar til samþykktar 13. Önnur mál Framboð til stjórnar Í stjórn DÍS sitja sex manns. Á aðalfundi 2023 verður kosið um formann til tveggja ára og tvo meðstjórnendur til tveggja ára. Samkvæmt lögum félagsins geta aðeins fullgildir félagar sótt aðalfund og gefið kost á sér til stjórnar, þ.e. hafa verið orðnir félagar í DÍS fyrir síðasta aðalfund árið 2022. Þeir félagar sem hafa ekki greitt félagsgjald fyrir árið 2022 verða að greiða fyrir aðalfund til að geta setið fundinn og verið kjörgengir. Framboð til stjórnar og lagabreytingartillögur þurfa að berast í síðasta lagi föstudaginn 19. maí á netfang félagsins dyravernd@dyravernd.is og verður kynnt á heimasíðu DÍS laugardaginn 20. maí. Framboðstilkynningu þarf að fylgja kynningartexti, 100-200 orð ásamt upplýsingum um til hvaða stjórnarsætis er boðið fram. Stjórn mun leggja fram lagabreytingartillögur, þær má kynna sér hér . Við hvetjum félaga til að mæta og hafa áhrif á störf DÍS. Stjórn DÍS Ályktun stjórnar Dýraverndarsambands Íslands Dýraverndarsamband Íslands (DÍS) vekur athygli á þeirri skýru niðurstöðu Matvælastofnunar (MAST), á grundvelli gagna sem söfnuðust við eftirlit með hvalveiðum á síðasta ári, að óásættanlega hátt hlutfall þeirra veiddu hvala, sem eftirlitið náði til, þjáðust. Í ágúst á síðasta ári undirritaði matvælaráðherra reglugerð um aukið eftirlit með veiðum á langreyðum við Ísland sem fól meðal annars í sér að veiðarnar skyldu kvikmyndaðar. Tilgangur þess var að stuðla að bættri velferð dýra en DÍS hefur árum saman haldið því fram að hvalveiðar séu ómannúðlegar og eigi ekki rétt á sér. Nú er komin út svört skýrsla MAST um hvalveiðar Hvals hf á síðasta ári og kemur þá í ljós að 41% dýranna dó ekki samstundis. Miðgildi þess tíma sem dauðastríð þeirra dýra tók var heilar ellefu og hálf mínúta. Í eitt skiptið tók dauðastríðið tvo klukkutíma og í öðru tilviki stóð eltingarleikur hvalbáts yfir í fimm klukkustundir eftir að sprengiskutli var skotið í bak dýrsins. Ekki tókst að ná dýrinu og slapp það því að lokum helsært. 73% þeirra alls 148 hvala sem veiddir voru í fyrra voru kvenkyns þar af 11 kálfafullar kýr og ein mjólkandi. Matvælastofnun segir veiðarnar ekki uppfylla markmið laga um dýravelferð og vísar því til fagráðs um velferð dýra að meta hvort veiðarnar geti mögulega uppfyllt þau markmið. Niðurstaða eftirlitsins á síðasta ári leiðir í raun í ljós að svo er ekki en mikilvægt engu að síður að undirbyggja vel lagalega ákvörðun um að binda í eitt skipti fyrir öll enda á það dýraníð sem hvalveiðarnar sannanlega eru. Ábyrgðin á þessari stundu liggur fyrst og fremst hjá Hval hf og eiganda þess fyrirtækis að bregðast við áfellisdómi MAST og hætta við veiðar í sumar þó svo að eitt ár sé eftir af veiðileyfi fyrirtækisins. DÍS fer hér með fram á að veiðunum ljúki tafarlaust en að stjórnvöld beiti Hval hf að öðrum kosti ströngum viðurlögum ef svo illa fer að veiðar haldi áfram í sumar og að annar hvalur deyi ekki samstundis, sem næsta víst er að muni þá gerast í einni af fyrstu veiðiferðunum. Stjórn DÍS leggur áherslu á þá meginkröfu að lok hvalveiða verði varanleg en ekki tímabundin þannig að aldrei framar verði kvóti útgefinn eða leyfi veitt á Íslandi fyrir hvalveiðum. Stjórn Dýraverndarsambands Íslands |