Yfirlýsing frá Dýraverndarsambandi Íslands vegna ákvörðunar matvælaráðherra að leyfa hvalveiðar11/6/2024
Dýraverndarsamband Íslands (DÍS) harmar og lýsir vonbrigðum með þá ákvörðun matvælaráðherra að heimila hvalveiðar í sumar. Ráðherra kynnti ríkisstjórn ákvörðun sína í morgun að heimila veiðar á samtals 128 langreyðum og er leyfið veitt til eins árs. Ráðherra segist bundinn af lögum um hvalveiðar sem eru frá árinu 1949 og hendur hennar séu því bundnar. DÍS ítrekar þá áður framkomnu kröfu sambandsins að hin löngu úreltu lög um hvalveiðar verði afnumin eða þeim breytt verulega til nútímahorfs hið allra fyrsta. Fyrir liggur afstaða Matvælastofnunar og fagráðs um velferð dýra að veiðarnar séu ýmist ekki í anda laga um dýravelferð né að unnt sé að veiða stórhvali þannig að ákvæði laga um dýravelferð séu yfirleitt uppfyllt. Hvalveiðar eru algjör tímaskekkja í nútímasamfélagi enda eru veiðar á stórhvölum aðeins stundaðar í einu ríki í heiminum og það af einu fyrirtæki sem heitir Hvalur hf. Þótt það sé í sjálfu sér jákvæð breyting að ekki sé veitt leyfi lengur en til eins árs í stað fimm áður og að veiðikvótinn sé minnkaður umtalsvert þá er þetta engu að síður svartur dagur fyrir dýravelferð á Íslandi. Dýraverndarsamband Íslands skorar á stjórnvöld og Alþingi að ganga nú án tafar í það nauðsynlega verkefni að afnema eða breyta í grundvallaratriðum lögum um hvalveiðar þannig að þessar ómannúðlegu veiðar heyri sögunni til hið allra fyrsta. Stjórn Dýraverndarsambands Íslands Dýraverndarsamband Íslands skorar á stjórnvöld að endurskoða eftirlit með velferð dýra. Neðangreind ályktun var samþykkt á aðalfundi Dýraverndarsambands Íslands þann 16. maí 2024: Það er hlutverk Matvælastofnunar að sjá til þess að lögum um velferð dýra og tilheyrandi reglugerðum sé framfylgt. Á bæ í Þverárhlíð í Borgarbyggð hafa mörg ákvæði reglugerðar um velferð sauðfjár og geitfjár greinilega verið brotin í áraraðir og varðar það við refsiábyrgð skv. lögunum. Þrátt fyrir augljós brot eigenda dýranna hefur Matvælastofnun ekki varið velferð umræddra dýra. Það er óviðunandi að Dýraverndarsamband Íslands standi ítrekað í deilum við þá stofnun sem lögum samkvæmt hefur eftirlit með dýravelferð um hvort velferð dýra í ákveðnum málum sé uppfyllt eða ekki, þegar ljóst er að svo er ekki. Fundurinn skorar á stjórnvöld að endurskoða og breyta því fyrirkomulagi sem ríkir um eftirlit með velferð dýra án tafar og að þau sjái til þess að opinberar stofnanir sinni lögbundnum skyldum sínum gagnvart dýrum. Dýraverndarsamband Íslands (DÍS) hefur fengið staðfest að nú séu kindur og lömb innan girðingar bæði austan og vestan við Grindavík. Eins og áður hefur komið fram forgangsraða Almannavarnir skepnur út frá verðmætum - og samkvæmt því eru þau ekki metin sem skyni gæddar verur. Féð er innilokað og bjargarlaust, í sjálfheldu í Grindavík. Þeim er mikil hætta búin sökum gasmengunar og hraunflæðis (komi til þess inn í Grindavík). Einnig er það alvarlegt að féð sé á svæðinu bjargarlaust ef eina opna leiðin að Grindavík, Suðurstrandarvegur, lokast. Dýr eru skyni gæddar verur með tilfinningar og sál, þau eru ekki hlutir og því er það ákall DÍS að þessum dýrum verði komið til bjargar. Bent skal á að skv. lögum um velferð dýra er hverjum þeim er vart verður við dýr í neyð skylt að koma þeim til bjargar. Dýraverndarsamband Íslands óskar eftir að brugðist verði tafarlaust við í málinu og dýrunum forðað frá þjáningu. Stjórn Dýraverndarsambands Íslands Á nýliðnum aðalfundi Dýraverndarsambands Íslands (DÍS) þann 16. maí síðastliðinn var kjörin ný stjórn. Kosið er um þrjú embætti á á hverjum aðalfundi skv. lögum sambandsins. Að þessu sinni var kosið um fjögur embætti þar sem Liselotte Widing sagði sig frá stjórnarstörfum. Eitt framboð barst í hvert embætti. Í stjórn DÍS sitja árið 2024-2025 Linda Karen Gunnarsdóttir formaður Anna Berg Samúelsdóttir meðstjórnandi Sigursteinn R. Másson hlaut endurkjör sem meðstjórnandi til eins árs. Nýir stjórnarmenn í DÍS eru Ágúst Ólafur Ágústsson ritari, María Lilja Tryggvadóttir gjaldkeri og Þóra Hlín Friðriksdóttir meðstjórnandi. Við bjóðum þau hjartanlega velkomin. Fráfarandi stjórnarmenn eru Hrefna Sigurjónsdóttir í embætti ritara, Marietta Maissen í embætti gjaldkera og Liselotte Widing í embætti meðstjórnanda. Við þökkum þeim kærlega fyrir sitt góða starf í þágu sambandsins og velferðar dýra. Hér má finna nánari upplýsingar um stjórn DÍS. |