Í gær föstudaginn 25. október kom það fram hjá forsætisráðherra að umsókn um leyfi til veiða á langreyðum hafi borist matvælaráðuneytinu. Ráðherra sagði við fréttamenn að afloknum ríkisstjórnarfundi að til greina kæmi að afgreiða umsóknina á tímabili starfsstjórnarinnar og þá mögulega fyrir næstu Alþingiskosningar. Í fyrradag bárust þær fréttir að helsti stuðningsmaður hvalveiða á Alþingi, Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokks, hafi verið valinn sérlegur fulltrúi forsætisráðherra í matvælaráðuneytinu. Í viðtali í Bítinu á Bylgjunni þann 25. nóvember sagði Jón Gunnarsson það koma til greina að afgreiða umsóknina um hvalveiðar nú á næstunni. Umsókn Hvals hf. um veiðar á langreyðum er ótímabundin en ellegar til 5 – 10 ára. Hér gæti því verið um að ræða skuldbindandi og stefnumarkandi ákvörðun ekki aðeins fyrir næstu ríkisstjórn heldur þær ríkisstjórnir sem koma þar á eftir í áratug eða lengur héðan í frá. Umsóknir hvalveiðifyrirtækja um veiðileyfi, eins og Hvals hf, hafa alla jafna verið afgreiddar á sama ári og veiðum er ætlað að hefjast og þá á fyrsta eða öðrum ársfjórðungi þess sama árs. Það væri óeðlileg og óvönduð stjórnsýsla að hlaupa nú til á tíma minnihlutastarfsstjórnar, með afar takmarkað umboð, og binda hendur næstu ríkisstjórnar og ríkisstjórna framtíðarinnar í jafn umdeildu og hápólitísku máli og hvalveiðarnar eru. DÍS bendir á að starfshópur forsætisráðherra er nú að störfum þar sem metnir eru hagsmunir Íslands og alþjóðlegar skuldbindingar þegar hvalveiðar eru annars vegar og mikilvægt að bíða þeirrar niðurstöðu áður en frekari ákvarðanir eru teknar. Dýraverndarsamband Íslands skorar á Bjarna Benediktsson forsætisráðherra að bíða með ákvörðun um hvalveiðar þar til niðurstaða starfshóps forsætisráðherra um hvalveiðar liggur fyrir og að ný ríkisstjórn með meirihlutastuðningi Alþingis hefur tekið við að afloknum kosningum. Stjórn Dýraverndarsambands Íslands Bréfið í heild sinni F.v. Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri, Linda Karen Gunnarsdóttir formaður DÍS, Ágúst Ólafur Ágústsson stjórnarmaður í DÍS, Anna Berg Samúelsdóttir stjórnarmaður í DÍS, María Lilja Tryggvadóttir stjórnarmaður í DÍS, Kristín Alda Jónsdóttir lögfræðingur hjá embætti ríkislögreglustjóra. Fimmtudaginn 10. október áttu fulltrúar úr stjórn Dýraverndarsambandsins fund með Sigríði Björk Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra um viðbrögð og ferla þegar lögregla fær tilkynningu um dýr í neyð. Öllu máli skiptir að dýr hljóti þá vernd sem þau hafa í lögum og hefur lögregla þar mikilvægt hlutverk sem viðbragðsaðili. Engin bakvakt hjá Matvælastofnun vegna dýravelferðarmála Matvælastofnun (MAST) fer með eftirlit með dýravelferð í landinu. Símatími MAST er aðeins í 3 klukkustundir á dag á virkum dögum svo almenningur verður að leita til lögreglu utan þess tíma séu dýr í neyð. DÍS benti á að það væri óviðunandi að engin bakvakt sé fyrir hendi hjá MAST þegar stofnunin er lokuð sem lögregla getur leitað til þegar þeim berast upplýsingar frá almenningi um dýr í neyð. Því fer oft svo að dýr fá ekki þá vernd sem þeim ber samkvæmt lögum þar sem ekki er brugðist við þeim til handa. Nauðsynlegt er að öll lögregluumdæmin þekki verkferla í dýravelferðarmálum svo hægt sé að koma málum í rétt ferli hverju sinni. Í vor fann vegfarandi dána hvolpa í poka í Mosfellsbæ og var það tilkynnt til lögreglu, en skv. viðtali við forstjóra MAST í fjölmiðlum hafði engin tilkynning borist stofnuninni, en það var hlutverk lögreglu þar sem tilkynnandi var búinn að hafa samband við lögreglu vegna málsins. Ákeyrslur á dýr á vegum landsins Ákeyrslur á dýr eru alvarlegur vandi hér á landi, m.a. er ekið á hundruði sauðfjár árlega vegna lausagöngu þar sem mörg dýr kveljast. Lögregla hafi almennt ekki þekkingu á hvernig skuli aflífa dýr eða hafi byssu til að aflífa dýr og flókið getur verið að fá liðsinni þar sem ekki eigi allir bændur eða aðrir aðilar í nærumhverfinu byssu eða hafi tilskilið byssuleyfi. Dýr sem keyrt er á líða því oft kvalafullan og hörmulegan dauðdaga sem þau eiga að vera varin fyrir. DÍS benti á að nauðsynlegt væri að þetta sé skoðað innan lögreglunnar. Ríkislögreglustjóri tók vel í þær ábendingar sem bárust frá DÍS og mun eiga samráð við lögregluumdæmin, matvælaráðureyti og Matvælastofnun í kjölfar fundarins og lagði jafnframt til að eiga annan fund með sambandinu fljótlega. Frá vinstri; María Lilja Tryggvadóttir stjórnarmaður DÍS, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra, Linda Karen Gunnarsdóttir formaður DÍS, Ágúst ÓIafur Ágústsson stjórnarmaður DÍS. Í dag áttu fulltrúar DÍS fund með Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra þar sem staðan í málaflokki dýravelferðar var rædd ásamt áherslumálum sambandsins. Ráðherra fagnaði fundinum og benti hún á að dýravelferð verði í forgangi í hennar ráðherratíð sem DÍS fagnar. DÍS fjallaði um stöðuna á eftirliti með velferð búfjár sem er ekki viðunandi. Ráðherra benti á í því samhengi að stefnt sé að heildarendurskoðun dýravelferðarlaga í vetur sem er mjög jákvætt fyrir málaflokkinn. Einnig verði viðbrögð í haust við ákveðnum athugasemdum Ríkisendurskoðunar á eftirliti Matvælastofnunar með velferð búfjár. DÍS benti einnig á nauðsyn þess að dýr verði skilgreind sérstaklega í lögum um almannavarnir og að þeim sé bjargað strax og fólki hefur verið komið til bjargar í náttúruvá, í stað þess að björgun þeirra sé framkvæmd samkvæmt mati á verðmætum eins og nú er. Einnig benti DÍS á að skerpa verði á 7. gr. dýraverndarlaga um hjálparskyldu í þessu skyni, að tilgreint verði að dýrum sé bjargað með flutningum þegar aðstæður krefjast þess. Ráðherra tók vel í þessa tillögu og sagðist myndu fylgja henni eftir. Nefnd voru önnur mál án sérstakrar umræðu, verndun hvala, sela, refa og fugla á válistum ásamt blóðmerahaldi. Ráðherra var eindregið hvattur til að láta sig þessi mál sig varða og að tryggja að Ísland verði í fremstu röð í málefnum dýravelferðar. Dýraverndunarstöðin í Tungu. Tunga stóð efst á Laugaveginum, ská á móti Bolholti sem nú er. Á húsinu stendur: Dýraverndunarfélag Íslands hýsir hesta. Í dag fagnar Dýraverndarsamband Íslands (DÍS) 110 árum! Fyrir frumkvæði og þrautseigju dýravina var Dýraverndarsamband Íslands stofnað þann 13. júlí 1914. Sambandið hét í upphafi Dýraverndunarfélag Íslands. Saga DÍS er orðin löng og er mjög merk, en sambandið hefur náð mörgum áfangasigrum í þágu velferðar dýra hér á landi. Nefna má í því tilliti brýnasta verkefni Dýraverndunarfélagsins í upphafi sem var að koma á lögum um dýravernd. Tókst það árið 1915 fyrir tilstilli félagsins sem lagði fram frumvarp til laga sem var samþykkt á Alþingi og var mikill áfangi. Félagið hefur komið að lagabreytingum alla tíð síðan og segja má að saga dýraverndarlaga á Íslandi sé samofin sögu þess. Hér má kynna sér nánar sögu og áfangasigra Dýraverndarsambandsins í baráttunni fyrir bættri velferð dýra: Saga DÍS Stefnt er að því að halda afmælishátíð og málþing í nóvember til að fagna þessum merka áfanga sem verður auglýst nánar síðar. |