Þann 9. maí sl. rann út frestur fyrir fullgilda félaga í DÍS að bjóða sig fram til stjórnarsetu í sambandinu. Þau sæti sem kosið skal um á komandi aðalfundi þann 16. maí eru sæti ritara, gjaldkera og meðstjórnanda til tveggja ára og sæti meðstjórnanda til eins árs. Eitt framboð barst í hvert sæti. Eftirfarandi framboð bárust til stjórnarsetu í DÍS. Sitjandi meðstjórnandi Sigursteinn R. Másson gefur kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu í sæti meðstjórnanda til eins árs. Framboð í sæti ritara til tveggja ára Ágúst Ólafur Ágústsson Ágúst Ólafur Ágústsson er lögfræðingur og hagfræðingur. Ágúst er fyrrverandi alþingismaður þar sem hann tók ítrekað upp á vettvangi Alþingis málefni dýra og dýraverndar. Dæmi um atriði sem Ágúst tók upp á þingi má sjá í meðfylgjandi grein. Ágúst hefur unnið hjá Sameinuðu þjóðunum í New York, verið efnahagsráðgjafi forsætisráðherra, setið í bankaráði Seðlabanka Íslands, verið formaður Evrópunefndar forsætisráðherra og framkvæmdasjóðs aldraða ásamt því að vera formaður Barnanefndar um stöðu barna í mismunandi fjölskyldugerðum svo eitthvað sé nefnt. Þegar Ágúst sat á Alþingi var hann m.a. formaður viðskiptanefndar Alþingis, varaformaður fjárlaganefndar og allsherjarnefndar ásamt því að vera í Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins. Undanfarin misseri hefur Ágúst Ólafur unnið sem kennari við Háskóla Íslands, verið sjálfstæður ráðgjafi og stundað doktorsnám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands. Í fyrra vann Ágúst ítarlega úttekt fyrir Dýraverndarsamband Íslands um bætt eftirlit með dýravelferð á Íslandi. Framboð í sæti meðstjórnanda til tveggja ára Þóra Hlín Friðriksdóttir Þóra Hlín Friðriksdóttir heiti ég og sæki hér með um aðild í stjórn Dýraverndarsambands Íslands og heiti því að leggja mig fram af heillindum og vera sterkur málsvari hinna màllausu. Ég er fædd 7. febrúar árið 1980 og ólst upp á Dalvík. Ég er í sambúð og bý á Kàrsnesi ásamt golden retriever hundinum Herkúles. Ég er hjúkrunarfræðingur og sjúkraliði að mennt ásamt því að hafa kennt yoga og leitt hugleiðslu viðburði til margra ára. Ég lagði stund á hestamennsku fram á fullorðinsár og hafa dýravelferðamál alla tíð verið mér ofarlega í huga. Framboð í sæti gjaldkera til tveggja ára María Lilja Tryggvadóttir Ég, María Lilja Tryggvadóttir býð mig fram í stöðu gjaldkera hjá Dýraverndarsambandi Íslands (DÍS) til tveggja ára. Ég er menntuð sem viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Bifröst, hef setið í ýmsum nefndum og stjórnum í bæði skóla og vinnu, t.d í Umhverfisráði framhaldsskólans í Mosfellsbæ þar sem mér er einnig mjög annt um umhverfið okkar. Ég er alin upp í sveit, umkringd öllum tegundum af dýrum. Þar hef ég orðið vitni að ýmsum ófögrum atburðum sem sitja í mér enn þann daginn í dag. Eftir að ég flutti til Reykjavíkur hef ég tekið að mér aldraða hunda. Mér er mjög annt um heilsu dýra, bæði andlega og líkamlega og tel að við getum gert margt til að bæta heilsu þeirra til muna. Ég tók að mér gamlan Labrador hund 2022. Torres gamli var á 13 ári þegar hann kom til mín þjakaður af gigt og í ofþyngd. Með réttu matarræði og fæðubótarefni umbreyttist hann og lifði til 15 ára aldurs. Í lok desember mánaðar 2023 bættist svo einn annar gamall hundur við fjölskylduna okkar. Lalli er 10 ára gamall og hefur gengið í gegnum ömurlega hluti á sinni ævi. Á stuttum tíma hefur hann komið út úr skelinni sinni og farið þvílíkum framförum. Hvort sem það eru gæludýr, búdýr eða villt dýr, þá eiga málleysingjarnir rétt á góðri meðferð, og eiga að njóta vafans. Það er á ábyrgð okkar að tala fyrir þá sem geta ekki talað, aðstoðað þá sem þurfa á hjálp að halda og að berjast fyrir betri réttindum fyrir þeim sem þurfa á því að halda. Ég brenn fyrir bættri velferð og ég er viss um það með mínu framlagi til þessa góða sambands, geti ég beitt mér fyrir áframhaldandi starfi fyrir dýrin okkar. Ég hef séð að þrátt fyrir að DÍS sé ekki með framkvæmdarvald, þá er það sambandið sem fólk snýr sér að þegar neyðin er mest, þegar fjölmiðlar vilja svör og þegar ábyrgar stofnanir hafa brugðist hlutverki sínu. Höldum áfram að þrýsta á ábyrgðaraðilana, fáum svörin og vinnum að bættri framtíð fyrir okkur öll. Að berjast fyrir dýravelferð er mér hjartans mál og vona að ég fái tækifæri til að leggja mitt af mörkum sem meðlimur í stjórn Dýraverndarsambands Íslands. Lagabreytingatillögur Þann 9. maí rann einnig út frestur fyrir fullgilda félaga að senda inn lagabreytingartillögur. Engar lagabreytingatillögur bárust. Við hvetjum fullgilda félaga til að mæta á aðalfundinn fimmtudaginn 16. maí kl 17:00 í húsnæði Hjálpræðishersins að Suðurlandsbraut 72, 108 Reykjavík og hafa áhrif á störf DÍS. Stjórn DÍS Comments are closed.
|