F.v. Anna Margrét Áslaugardóttir formaður Dýrfinnu, Freyja Kjartansdóttir, Elín Ósk Blomsterberg og Eygló Anna Ottesen stjórnarkonur í Dýrfinnu.
Dýraverndari ársins 2024
DÝRFINNA DÝRAVERNDARSAMTÖK
Dýraverndari ársins 2024 er dýraverndarsamtökin Dýrfinna sem hjálpa týndum gæludýrum að komast heim. Dýrfinna hefur unnið ómetanlegt starf undanfarin ár við að koma týndum gæludýrum aftur til eigenda sinna og hefur starf samtakanna reynst mikilvægt framfaraskref í þágu gæludýra sem týnast.
Dýrfinna hefur skipulagt og tekið þátt fjölmörgum leitum að hundum, köttum og fuglum. Samtökin veita ráðgjöf þegar dýr hefur týnst og hefur haldið úti fræðslu um hvernig má fyrirbyggja að gæludýr týnist, ekki síst um áramótin. Einnig hefur félagið sinnt fjölda fjölbreyttra verkefna í tengslum við gæludýr sem finnast á vergangi.
Kraftar Dýrfinnu reyndust afar dýrmætir þegar eldsumbrot hófust við Grindavík í nóvember 2023, en mikill fjöldi dýra varð eftir á svæðinu og ekkert skipulag fyrir hendi af hálfu yfirvalda að koma þeim í skjól. Dýrfinna kom að skipulagi vegna dýra sem urðu eftir og unnu jafnframt mikilvægt starf varðandi björgun dýra á svæðinu í samstarfi við önnur dýraverndarfélög og björgunarsveitir.
Stjórnarmenn Dýrfinnu hafa sýnt ótrúlega þrautseigju, frumkvæði og hugrekki með framtaki sínu í þágu dýra. Stjórn Dýrfinnu eru sjálfboðaliðar samtakanna og samanstendur af þeim Önnu Margréti Áslaugardóttur, Guðfinnu Kristinsdóttur, Freyju Kjartansdóttur, Söndru Ósk Jóhannsdóttur, Eygló Önnu Ottesen, Elínu Ósk Blomsterberg, Ragnheiði Lilju Maríudóttur og Snædísi Þorleifsdóttur.
Það er mikill heiður fyrir Dýraverndarsamband Íslands að veita Dýrfinnu viðurkenninguna Dýraverndari ársins 2024. Fyrir sín störf í þágu dýra eiga þau mikið lof skilið.