Yfirlýsing DÍS vegna álits umboðsmanns Alþingis um frestun hvalveiða
9. janúar 2024
Dýraverndarsamband Íslands (DÍS) lýsir vonbrigðum sínum með álit umboðsmanns Alþingis þess efnis að skort hafi lagaheimild til að fresta veiðitímabili á langreyðum sumarið 2023. Í álitinu eru lög um velferð dýra frá 2013 víkjandi en tekið fram að ekki hafi verið nægilega skýr stoð í lögum um hvalveiðar frá 1949 fyrir ákvörðun matvælaráðherra um frestun veiða. Þannig er í álitinu vægi 75 ára úreltra hvalveiðilaga metið mun þyngra en 11 ára laga um dýravelferð.
DÍS telur það vera mikið áhyggjuefni að dýravelferð er sett til hliðar og hvetur ríkisstjórn og Alþingi til þess að ganga án tafar í að endurskoða löggjöf þannig að dýr njóti vafans, en að atvinnuréttur sé ekki látinn ganga framar því að uppfylla lög um dýravelferð. Í tilviki Hvals hf var búið að sýna fram á veiðarnar væru ekki í samræmi við lög um dýravelferð og því bar ráðherra að bregðast við.
Þetta álit umboðsmanns leiðir í ljós nauðsyn á endurskoðun og breytingu laga umfram allt annað.
Stjórn Dýraverndarsambands Íslands
Til baka