Vanhöld hrossa á bænum Laugabóli í Arnarfirði

25. október 2023

Stjórn DÍS hefur sent neðangreint bréf til Matvælastofnunar (MAST) vegna áframhaldandi alvarlegs ástands og slæms aðbúnaðar hrossa á bænum Laugabóli í Arnarfirði. 

Erindi: Vanhöld dýra á bænum Laugabóli í Arnarfirði

Dýraverndarsambandi Íslands hefur borist ábending um áframhaldandi alvarlegt ástand og slæman aðbúnað hrossa á bænum Laugabóli í Arnarfirði. Um er að ræða um 24 hross sem ganga um lítt eða ógirt svæði, þar af þrjá graðhesta og nýkastað folald. Á bænum eru um 6-7 hryssur komnar að köstun sem sýnir jafnframt alvarlegt skeytingarleysi af hálfu eiganda. Málið er ekki síður áríðandi vegna þess að veturinn er á næsta leiti og þarna eru hryssur komnar að köstun, sem er hættulegt fyrir líf og heilsu þeirra og folaldanna.

DÍS átti fund með yfirstjórn MAST í vor þar sem fjallað var sérstaklega um mál hrossanna á Laugabóli. DÍS benti m.a. á að greinilegt væri að ekki væri farið eftir reglum um eftirlit með hrossunum, að graðhestar væru lausir á þessum stað og lýsti yfir áhyggjum af því að mertryppi sem þarna eru í hópnum, 2-3 vetra, myndu verða fyljaðar. Nú hefur sambandið fengið þær upplýsingar að þarna séu þrír graðhestar enn lausir í hrossahópnum.

Á fundinum var jafnframt bent á af hálfu DÍS að tilkynnandi hafi haft beint samband símleiðis við dýraeftirlitsmann MAST í Norðvesturumdæmi vegna málsins, sem sagði við viðkomandi að hann gæti tekið eiganda hrossanna með sér vestur til að skoða málið. Þetta bendir til að viðkomandi dýraeftirlitsmaður eigi í vinasambandi við eiganda hrossanna, sem þá gerir þennan eftirlitsmann vanhæfan í málinu. DÍS óskar því eftir að óháður eftirlitsaðili fari á staðinn og skoði ástand og aðbúnað þessara hrossa.

Dýraverndarsamband Íslands fer fram á tafarlausar aðgerðir til handa hrossunum á bænum Laugabóli og að velferð þeirra sé varin.

Stjórn DÍS

Til baka

Previous
Previous

Umsögn DÍS um frumvarp til laga vegna banns við hvalveiðum

Next
Next

Ályktun Dýraverndarsambands Íslands vegna hvalveiða