Umsögn DÍS um frumvarp til laga vegna banns við hvalveiðum

27. október 2023

Dýraverndarsamband Íslands (DÍS) lýsir sig eindregið hlynnt markmiðum frumvarpsins um að banna hvalveiðar við Ísland. Frá því að greinargerð frumvarpsins var rituð hefur það komið í ljós að enginn marktækur tölfræðilegur munur er á þeim fjölda langreyða sem drepnar voru á kvalarfullan hátt (voru með tvo eða fleiri sprengiskutla í skrokknum) á veiðivertíðinni í september á þessu ári miðað við vertíðina sumarið 2022. 

Hval hf var sumarið 2023 gert að gera tillögur um breyttar veiðiaðferðir en fyrirtækið hefur nú, með þeirri niðurstöðu sem fyrir liggur eftir veiðar í september 2023, sýnt fram á og sannað það álit fagráðs um velferð dýra að veiðar á stórhvelum samræmist ekki ákvæðum laga nr. 55/2013, um velferð dýra. 

Í greinargerð með frumvarpinu segir: „Í ljósi þess að engin fullvissa er fyrir því að breyttar veiðiaðferðir uppfylli markmið laga um dýravelferð telja flutningsmenn frumvarps þessa óásættanlegt að veita leyfi fyrir tilraunastarfsemi við hvaladráp sem alls óvíst er að skili mannúðlegri aflífun. Hvalirnir skulu njóta vafans.“ Dýraverndarsamband Íslands telur hins vegar nú engan vafa leika á því að engin möguleg leið er að veiða hvali á mannúðlegan hátt. 

DÍS tekur aðeins afstöðu til þess hluta greinargerðar og frumvarps sem hefur að gera með lög um velferð dýra og önnur dýravelferðarsjónarmið. 

DÍS gerir ekki athugasemdir við tillögur í frumvarpinu um breytingar á einstaka greinum umræddra laga. Varðandi Hvalir í 3. grein „Óheimilt er að flytja út, bjóða til sölu eða selja veiðibráð eða aðrar afurðir hvala sem hafa verið aflífaðir eða drepist í netum“, bendir DÍS á að slysaveiðar á hvölum er því miður staðreynd og er það sérstaklega mikið vandamál þegar kemur að smáhvelum eins og hnísum. Það er brýnt dýravelferðarmál sem vert er að vinna í að koma í veg fyrir sem mest t.d. með hljóðmerkjum frá togurum til að fæla hvali frá veiðarfærum. Um þetta eru margvíslegar tilraunir í gangi nú.

DÍS hefur um nokkurt skeið talað fyrir því að dýrategundirnar hvalir og selir falli undir lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum nr. 64/1994 og lýsir sig þar af leiðandi eindregið hlynnt þeirri breytingu að hvalir falli undir löggjöfina. DÍS er sammála því að villidýralögin séu hinn eðlilegi lagarammi utan um allar hvalategundir og sömuleiðis því að langbesta leiðin til að bæta lagalega stöðu hvala væri að fella öll sjávarspendýr, þ.m.t. seli, undir ný villidýralög þannig að meginreglur umhverfisréttar nái til þeirra. 

Stjórn DÍS

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna banns við hvalveiðum. 154. löggjafarþing 2023-2024. Þingskjal 99 — 99. mál.

Til baka

Previous
Previous

Hvatning DÍS til fjáreigenda varðandi geldingar á hrútum

Next
Next

Vanhöld hrossa á bænum Laugabóli í Arnarfirði