Ingunn Einarsdóttir

Frumkvöðull í dýravernd

Ingunn var talin fædd þann 27. ágúst árið 1850 en í prestþjónustubók segir að hún sé fædd þann 16. ágúst. Hún fæddist á Urriðafossi við Þjórsá en ólst upp hjá fóstrurforeldrum á Álfsstöðum á Skeiðum. Sem ung stúlka hafði Ingunn mikla samkennd með dýrum og veitti illri meðferð dýra athygli.

Árið 1877 giftist Ingunn Jóhanni Friðriki Jónssyni trésmið og eignuðust þau 8 börn, 4 syni og 4 dætur. Jóhann lést 10 árum seinna og létust 5 af börnum þeirra. Einn sonur og tvær dætur komust til fullorðinsára. Ingunn giftist aftur árið 1894 Þórði Þórðarsyni bónda. Þau fluttust að bænum Laugarnesi í Reykjavík árið 1900 og bjuggu þar í 15 ár, en árið 1915 fluttust þau að Bjarmalandi, sem var landskiki Laugarness, þar sem dóttir hennar bjó ásamt sinni fjölskyldu.

Ingunn var einn helsti hvatamaður að stofnun Dýraverndunarfélags Íslands árið 1914. Árið 1915 hvatti hún til þess að félagið myndi gefa út blað til að fræða almenning um dýr og velferð þeirra. Það var samþykkt gegn því að Ingunn, ásamt tengdasyni sínum Emil Rokstad, myndu greiða fyrir útgáfu fyrsta árgangsins. Var henni falið að gefa ritinu nafn og gaf hún því nafnið Dýraverndarinn.

Eitt af baráttumálum Ingunnar var að félagið opnaði skýli fyrir aðkomuhesta í Reykjavík, Dýraverndunarstöðina, sem varð vísir að fyrsta dýraathvarfi og dýraspítala landsins.

Ingunn var óþreytandi að halda ræður, skrifa bréf og safna fé til stuðnings málefninu.

Árið 1929 var Ingunn gerð að heiðursfélaga í Dýraverndunarfélagi Íslands. Nokkrum árum síðar gaf hún út bók um erindi sín um dýravernd undir titlinum Menn og dýr.

Ingunn lést í hárri elli 31. mars 1937.

,,Dýraverndunarfélagið okkar hefur þann tilgang að létta kvöl þeirra sem geta ekki borið hendur fyrir höfuð sér... Munið að þið eigið að vera verndarar dýranna.’’

-Ingunn Einarsdóttir