Fundur DÍS með atvinnuvegaráðherra
F.v. Sigursteinn Másson stjórnarmaður í DÍS, Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra og Linda Karen Gunnarsdóttir formaður DÍS.
20. nóvember 2025
Dýraverndarsambandið átti fund í gærdag með Hönnu Katrínu Friðriksson atvinnuvegaráðherra um málefni dýravelferðar og fjallaði m.a. um vernd hvala, nauðsyn þess að búfjárhald verði gert leyfisskylt og um skort á aðgengi dýra að réttlæti.
Vernd hvala
Á síðasta ári veitti þáverandi forsætisráðherra og matvælaráðherra í starfsstjórn, Bjarni Benediktsson, leyfi til veiða á langreyðum og hrefnum til næstu fimm ára. DÍS hefur mótmælt þessu harðlega en veiðar á hvölum eru ómannúðlegar.
Ríkisstjórnarflokkarnir hafa lýst sig andvíga hvalveiðum og hvatti DÍS atvinnuvegaráðherra til að koma í veg fyrir frekari veiðar á langreyðum og hrefnum.
DÍS hvatti ráðherra jafnframt til að gera Ísafjarðardjúp að skilgreindu griðarsvæði hvala eins og hefur verið gert við Faxaflóa, Skjálfanda og í mynni Steingrímsfjarðar.
Leyfisskylda þarf búfjárhald á Íslandi
DÍS telur mikilvægt að búfjárhald verði gert leyfisskylt þar sem það muni auðvelda störf yfirvalda við að verja velferð búfjár, ekki síst í alvarlegum málum.
Með leyfisskyldu verður yfirvöldum mögulegt að bregðast við með leyfissviptingu ef búfjáreigandi vanrækir ítrekað skyldur sínar gagnvart dýrum eða gerist sekur um stórfellt brot á dýravelferðarlögum. Sama gildir ef ljóst þykir að aðili hafi ekki getu til að annast dýr.
Hlífa má búfé við áralangri þjáningu með leyfisskyldu í búfjárhaldi, en því miður eru dæmi um mál þar sem slæmur aðbúnaður dýra breytist ekki þrátt fyrir inngrip yfirvalda sem er óviðunandi.
Um er að ræða nauðsynlegt skref í þágu bættrar velferðar búfjár og hvatti DÍS ráðherra til að gera búfjárhald leyfisskylt.
Dýr skortir aðgang að réttlæti
DÍS telur mikið skorta á aðgang að réttlæti fyrir hönd dýra á Íslandi en möguleiki félagasamtaka til að vera málsvarar dýra er takmarkaður eða enginn.
DÍS benti á að sambandið hafi, ásamt þýsk- svissnesku dýraverndarsamtökunum AWF/TSB kvartað til atvinnuvegaráðuneytisins í vor vegna ákvörðunar Matvælastofnunar (MAST) að vísa ekki máli til lögreglu er varðaði dýraníð í blóðmerahaldi. Um var að ræða illa meðferð á hryssum í blóðtöku í september 2024 þar sem hryssur voru slegnar og barðar. MAST ákvað að þessi meðferð á dýrunum yrði án viðurlaga, í reynd refsilaus, þótt skýrt sé í dýravelferðarlögum að óheimilt sé að beita dýr harðýðgi.
MAST óskaði eftir við ráðuneytið að kvörtuninni yrði vísað frá þar sem samtökin væru ekki aðilar máls sem var samþykkt, þrátt fyrir að samtökin hefðu tilkynnt málið.
DÍS benti á að það sé alvarlegt að málaflokkur dýravelferðar sé undanskilinn stjórnsýslulegri endurskoðun vegna þess að um sé að ræða málleysingja sem geta ekki varið sig sjálfir. DÍS hvatti ráðherra til að bæta úr þessu réttindaleysi dýra við endurskoðun dýravelferðarlaga, að samtök á sviði dýravelferðar hafi skýrar heimildir til að kalla eftir upplýsingum og kæra ákvarðanir er varða velferð dýra.
Ráðherra tók vel í að skoða þær tillögur DÍS sem komu fram á fundinum og fagnar DÍS því að heildarendurskoðun laga um velferð dýra verði unnin hjá ráðuneytinu næstu misseri.

