Áframhaldandi vanhöld sauðfjár á Höfða í Þverárhlíð
26. apríl 2024
Stjórn DÍS hefur sent bréf til Matvælastofnunar (MAST) vegna alvarlegs ástands sauðfjár á bænum Höfða í Þverárhlíð sem og bréf til sveitarfélagsins Borgarbyggðar sem hefur þær skyldur að smala ágangsfé.
Fjölmiðlar hafa reglulega fjallað um vanhöld skepna á Höfða undanfarið ár og alvarleg vanhöld sauðfjár hafa ítrekað verið tilkynnt til yfirvalda í samræmi við tilkynningarskyldu almennings skv. 8. gr. laga um velferð dýra. Um er að ræða dýravelferðarmál sem á sér langa sögu og hefur ill meðferð dýra á þessum stað ítrekað komið á borð Matvælastofnunar (MAST), án þess að staða eða aðbúnaður dýranna breytist sjáanlega til hins betra.
Málið er enn í ferli hjá MAST, sem fer með eftirlit með velferð dýra, en ljóst er málið þolir enga frekari bið.
Féð býr enn í dag við mikil vanhöld og aðbúnaður þess er í engu samræmi við kröfur um aðbúnað sauðfjár sbr. reglugerð nr. 1066/2014 um velferð sauðfjár og geitfjár. Girðingar eru jafnframt ekki heldar á bænum og óborið og nýlega borið fé laust utan girðingar og án eftirlits eigenda, en eftirlit skal hafa með fé á burðartíma til að gæta að velferð og heilsu dýranna.
Dýr eiga ekki að þjást á meðan mál eru í „ferli“. Ekkert dýr á að þjást.
Stjórn Dýraverndarsambands Íslands
Til baka