Framboð til stjórnar og lagabreytingar á aðalfundi 2025
9. maí 2025
Nú styttist í aðalfund Dýraverndarsambands Íslands sem haldinn verður miðvikudaginn 14. maí kl. 17-19 í húsnæði Hjálpræðishersins að Suðurlandsbraut 72. Eftirfarandi eru upplýsingar um þau framboð til stjórnar og þær lagabreytingartillögur sem bárust.
Þrjú bjóða sig fram til stjórnarsetu
Þann 6. maí sl. rann út frestur fyrir fullgilda félaga í Dýraverndarsambandi Íslands að bjóða sig fram til stjórnarsetu.
Þau sæti sem kosið skal um á aðalfundi þann 14. maí eru sæti formanns og tveggja meðstjórnenda til tveggja ára. Eitt framboð barst í hvert sæti, öll frá sitjandi stjórnarmönnum.
Framboð til formanns: Linda Karen Gunnarsdóttir
Framboð í sæti meðstjórnenda: Anna Berg Samúelsdóttir og Sigursteinn Másson.
Tvær tillögur að lagabreytingum
Þann 6. maí rann einnig út frestur til að senda inn tillögur að breytingum á lögum félagsins. Tvær tillögur bárust frá stjórn Dýraverndarsambandsins.
Lagabreytingartillaga 1: Boðun aðalfundar og réttur til þátttöku
Í dag er 2. mgr. 8. gr. um aðalfund svona:
Til hans skal boða með minnst 14 daga fyrirvara með auglýsingu og samkvæmt gildandi félagaskrá á hverjum tíma og telst hann þá lögmætur. Rétt til setu á aðalfundi eiga allir fullgildir félagsmenn.
Lagt er til að hún verði að tveimur málsgreinum sem orðast svo:
Aðalfundur telst lögmætur ef til hans er boðað með minnst 14 daga fyrirvara með rafrænum hætti með tölvupósti á gildandi félagaskrá og tilkynningu á vef sambandsins.
Rétt til setu á aðalfundi eiga allir fullgildir félagsmenn og mánaðarlegir styrktaraðilar. Atkvæðisrétt eiga allir fullgildir félagsmenn sem greitt hafa félagsgjöld yfirstandandi árs eða að lágmarki styrkt samtökin um sem nemur sömu upphæð.
Greinargerð
Með tillögunni eru lagðar til tvenns konar breytingar varðandi boðun aðalfundar og rétt til þátttöku.
Annars vegar er tekið skýrt fram að boðun aðalfundar með auglýsingu geti farið fram með rafrænum hætti.
Hins vegar er mánaðarlegum styrktaraðilum (Dýraverndurum) boðið að sitja aðalfundi sambandsins og félögum boðið upp á að greiða ígildi félagsgjalda í gegnum mánaðarlega styrktarkerfið. Þetta breytir ekki ákvæði 9. gr. um það að nýir félagar eru samþykktir á aðalfundi og öðlast rétt til að greiða atkvæði og bjóða sig fram á næsta aðalfundi á eftir, en þá teljist þeir fullgildir félagsmenn.
Lagabreytingartillaga 2: Breytt aldursmörk
Í dag er 1. mgr. 4. gr. um réttindi og skyldur félagsmanna svona:
Félagar geta orðið allir þeir einstaklingar, sem eru 18 ára og eldri og skráð félög sem vilja vinna að bættri meðferð dýra í samræmi við hlutverk og skuldbindingar sambandsins skv. lögum þessum.
Lagt er til að hún orðist svo:
Félagar geta orðið allir þeir einstaklingar sem vilja vinna að bættri meðferð dýra í samræmi við hlutverk og skuldbindingar sambandsins skv. lögum þessum. Kjörgengi hafa þeir félagar sem náð hafa 18 ára aldri en atkvæðisrétt hafa félagar sem náð hafa 16 ára aldri.
Jafnframt er lagt til að á eftir 2. mgr. 8. gr. (sem verður 3. mgr. ef tillaga 1 um boðun aðalfundar er samþykkt) komi:
Félagar 25 ára og yngri skulu undanþegnir félagsgjöldum.
Þá er lagt til að 1. málsl. 10. gr., sem í dag er: „Allir fullgildir félagsmenn hafa atkvæðisrétt á fundum félagsins“ orðist svona:
Allir fullgildir félagsmenn sem náð hafa 16 ára aldri hafa atkvæðisrétt á fundum félagsins.
Greinargerð
Með tillögunni er lagt til að fella aldursmörk út úr ákvæði um réttindi og skyldur félagsmanna. Nokkuð hefur borið á því að fólk undir 18 ára aldri sæki um aðild að Dýraverndarsambandi Íslands, enda virðist málaflokkur dýravelferðar vera þess eðlis að hann höfði sterkt til yngra fólks. Til að koma til móts við þann áhuga er því lagt til að opna aðild að félaginu óháð aldri.
Mikilvægt er að ekki séu innheimt félagsgjöld af fólki undir 18 ára aldri, en hér er lagt til að ganga lengra og undanþiggja fólk félagsgjöldum upp að 25 ára aldri. Þrátt fyrir það verður fólki að sjálfsögðu heimilt að styðja sambandið fjárhagslega bæði með stökum styrkjum eða með mánaðarlegu framlagi, kjósi það að gera það.