Aðalfundur DÍS verður 14. maí 2025
30. apríl 2025
Aðalfundur Dýraverndarsambands Íslands (DÍS) verður haldinn miðvikudaginn 14. maí kl. 17-19 í húsnæði Hjálpræðishersins að Suðurlandsbraut 72, 108 Reykjavík. Húsið opnar kl. 16.30.
Dýraverndari ársins
Á aðalfundinum verður veitt viðurkenning DÍS, Dýraverndari ársins. Viðurkenningin er veitt fyrir ötult starf í þágu velferðar dýra.
Dýraverndari ársins er Dýrfinna, félag sjálfboðaliða sem hjálpar týndum gæludýrum að komast heim. Dýrfinna hefur unnið ómetanlegt starf undanfarin ár við að koma týndum gæludýrum aftur til eigenda sinna.
Dagskrá aðalfundar DÍS
Kosning fundarstjóra og fundarritara
Ársskýrsla stjórnar
Ársreikningar lagðir fram til samþykktar
Dýraverndari ársins 2024
Kaffihlé - boðið upp á léttar veitingar frá Kastalakaffi
Kjör formanns og tveggja meðstjórnenda
Kjör skoðunarmanns reikninga úr hópi annarra en stjórnarmanna
Lagabreytingatillögur
Félagsgjöld og nýir félagar til samþykktar
Önnur mál
Aðalfundi slitið
Framboð til stjórnar
Í stjórn DÍS sitja sex manns og er hverju ári kosið í helming stjórnarsæta til tveggja ára. Í ár er kosið í embætti formanns og tvö sæti meðstjórnenda til tveggja ára. Samkvæmt lögum félagsins geta aðeins fullgildir félagar sótt aðalfund og gefið kost á sér til stjórnar, þ.e. hafa verið orðnir félagar í DÍS fyrir síðasta aðalfund árið 2024.
Félagar verða að greiða félagsgjöld ársins 2025 fyrir aðalfund til að geta setið fundinn og verið kjörgengir. Ef félagi styrkir DÍS með mánaðarlegu framlagi verður það tekið jafngilt því að hafa greitt félagsgjöld.
Framboð til stjórnar og lagabreytingartillögur þurfa að berast í síðasta lagi þriðjudaginn 6. maí á netfang sambandsins dyravernd@dyravernd.is og verða kynntar á heimasíðu og samfélagsmiðlum DÍS.
Í framboðstilkynningu þarf að koma fram hvaða stjórnarsæti viðkomandi félagi sækist eftir og henni skal fylgja 100-200 orða kynningartexti og ljósmynd. Kynning á framboðum og lagabreytingartillögur verður sent í tölvupósti til félaga þann 9. maí.
Við hvetjum félaga til að mæta og hafa áhrif á störf DÍS.