DÍS og SDÍ skora á atvinnuvegaráðherra að koma í veg fyrir að annað blóðtökutímabil
6. maí 2025
Dýraverndarsamband Íslands og Samtök um dýravelferð skora á atvinnuvegaráðherra að koma í veg fyrir að annað blóðtökutímabil hefjist. Ítrekað hefur verið sýnt fram á kerfisbundið dýraníð í blóðmerahaldi, en nýtt myndefni sýnir hvernig dýralæknar Ísteka bregðast því hlutverki sínu að gæta velferðar hryssanna.
Þýsk-svissnesku dýraverndarsamtökin AWF og TSB hafa unnið nýtt myndband um störf dýralækna Ísteka á blóðtökutímabilinu 2024. Einnig er birt efni úr fyrri heimildarmyndum.
Hægt er að nálgast myndbandið hérna:
Dýralæknar sjást stinga nálum í hryssur sem eru augljóslega í uppnámi og virðast í mikilli þjáningu, jafnvel þannig að stungið sé ítrekað og af miklu afli. Þeir grípa ekki til aðgerða þó augljóst sé að hryssur þjáist, séu örmagna eða geti slasast.
Eftirlit með velferð hryssa í blóðmerahaldi er óviðunandi og því eðlilegt að atvinnuvegaráðherra grípi tafarlaust til aðgerða. Starfsleyfi Ísteka byggir auk þess á reglugerð sem var felld úr gildi í kjölfar álits Eftirlitsstofnunar EFTA árið 2023, þannig að veikur lagagrunnur er fyrir starfseminni.
Við skorum ennfremur á atvinnuvegaráðherra að hlusta á raddir dýravelferðarsamtaka, sérfræðinga og nærri 12 þúsund einstaklinga sem hafa skrifað undir áskorun DÍS til ráðherra um að stöðva blóðmerahald í eitt skipti fyrir öll.