Yfirlýsing DÍS vegna deyfingar á svínum með koltvíoxíðgasi
20. júní 2023
Deyfing svína með koltvíoxíðgasi er ómannúðleg og grimm. Gasið er ertandi en það myndar sýru í öndunarvegi dýranna sem veldur þeim þjáningu og ótta. Einnig veldur gasið mikilli köfnunartilfinningu og dýrin berjast um í ofboði til að ná andanum þangað til þau á endanum kafna. Þessi meðferð á dýrum er óásættanleg og á ekki að sjást í nútímasamfélagi.
Samkvæmt lögum 55/2013 um velferð dýra á aflífun dýra að vera skjót og sársaukalaus.
Deyfing svína með koltvíoxíðgasi samræmist þessu ákvæði ekki þar sem dýrin há í raun dauðastríð.
Nauðsynlegt er að fundnar verði mannúðlegri lausnir við deyfingu svína fyrir aflífun.
Dýraverndarsamband Íslands fer fram á að deyfing svína með koltvíoxíðgasi verði stöðvuð og bönnuð með lögum.
Stjórn Dýraverndarsambands Íslands
Til baka