Áframhaldandi alvarleg vanhöld sauðfjár á Höfða í Borgarbyggð
3. júlí 2023
Stjórn DÍS hefur sent neðangreint bréf á Matvælastofnun (MAST) vegna alvarlegs ástands sauðfjár frá bænum Höfða í Þverárhlíð sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum í dag.
DÍS hefur rætt aðbúnað og vanrækslu dýranna á þessum stað áður við MAST, með bréfaskriftum og á tveimur fundum með yfirstjórn MAST og með forstjóra. Málið er í ferli hjá stofnuninni og hefur DÍS beðið eftir aðgerðum en ekki er hægt að bíða lengur, það verður að verja velferð dýranna.
Efni: Alvarleg vanhirða á sauðfé frá bænum Höfða í Þverárhlíð í Borgarbyggð
Dýraverndarsamband Íslands hefur fengið nýjar upplýsingar um áframhaldandi alvarlegt ástand sauðfjár á bænum Höfða í Þverárhlíð. Upplýsingarnar varða fé sem er á útigangi í Norðurárdal í Borgarbyggð.
Myndefnið sem fylgdi tilkynningunni sýnir fullorðnar ær í tvöföldum eða þreföldum reifum, sumar haltrandi (mögulega um að ræða fótbrot), kind með júgurbólgu og ómerkt lömb. Ástandið er grafalvarlegt, hér þarf (eins og DÍS hefur áður bent á) að bregðast skjótt við og verja velferð dýranna. Sveitarfélagið stefnir á að smala ágangsfénu og koma því í afrétt (sbr. fréttatilkynning frá sveitarfélaginu), en vert er að benda á að ekki er hægt að sleppa veiku, vanhirtu og ómerktu fé á afrétt, það stenst ekki lög um dýravelferð.
MAST þarf að bregðast við vegna þessa ástands sem er með öllu óviðunandi og í ósamræmi við reglugerð nr. 1066/2014 um velferð sauðfjár og geitfjár. Dýr eiga ekki að þjást sbr. lög nr. 55/2013 um velferð dýra.
Stjórn DÍS
Til baka