Dýraverndarsamtökin Tierschutzbund Zurich (TSB) og The Animal Welfare Foundation (AWF) hafa birt nýja heimildarmynd um blóðtöku úr fylfullum hryssum hér á landi. Heimildarmyndin var tekin upp síðastliðið sumar og ber yfirskriftina Iceland – The Hidden Blood Business. Myndin sýnir að lítið hefur breyst frá því TSB og AWF birtu fyrstu heimildarmyndina haustið 2021 um þennan iðnað, Iceland - Land of the 5,000 Blood Mares (sjá hér) og vakti hún hörð viðbrögð, bæði innanlands og erlendis. Þar sáust hryssur berjast um bundnar á blóðtökubásum og þær beittar harðýðgi, bæði þegar verið var að reka þær á inn á blóðtökubás og þegar búið var að binda þær. Áleitin er einnig spurningin um tilganginn með þessum blóðtökum. Hormónið PMSG sem unnið er úr blóði fylfullra hryssa er notað sem frjósemislyf, aðallega fyrir svín í þauleldi. Lyfið veldur því að tími á milli gangmála hjá gylltum styttist og fjöldi grísa í hverju goti eykst. Lyfið orsakar mikið álag á gylltur og veldur auknum grísadauða þar sem grísir komast ekki allir á spena. Ljóst er að þetta lyf sem framleitt er úr hormóni úr íslenskum hryssum hefur slæm áhrif á velferð dýra sem haldin eru í aðstæðum þauleldis og eykur á þjáningu þeirra. Það er óviðunandi. Dýraverndarsamband Íslands leggst alfarið gegn blóðmerahaldi af dýravelferðarástæðum. Á málþingi DÍS þann 14. mars sl. (sjá hér) sagði Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra það sína skoðun að atvinnuvegir sem ekki tryggja velferð dýra eigi sér ekki framtíð í nútímasamfélagi. Að mati DÍS liggur í augum uppi að velferð fylfullra hryssa sem nýttar eru til blóðtöku er ekki og verður ekki tryggð með núverandi fyrirkomulagi. Dýraverndarsamband Íslands Comments are closed.
|