Svandís Svavarsdóttir Matvælaráðherra segir það sína skoðun að atvinnuvegir sem ekki geta tryggt velferð dýra eigi sér ekki framtíð í nútímasamfélagi. Þetta kom fram í ávarpi hennar (lesa ávarp ráðherra hér) á málþingi DÍS þann 14. mars um bætta dýravelferð þar sem útttekt DÍS um búfjáreftirlit var kynnt. Í þessu samhengi nefndi ráðherra sérstaklega hvalveiðar þótt það komi ekki fram í meðfylgjandi ávarpi sem sent var frá ráðuneytinu. Málþingið var vel sótt en 52 fylgdust með í sal og 48 manns fylgdust með í gegnum streymi. Á málþinginu kynnti Ágúst Ólafur Ágústsson lögfræðingur og hagfræðingur úttekina, sem hann vann fyrir DÍS um búfjáreftirlit, en megintillaga hans er sú að dýravelferðareftirlitið verði tekið út úr MAST og komið fyrir í sérstakri Dýravelferðarstofu undir Umhverfisráðuneyti eða í stofnun sem hefur með náttúruvísindi og náttúruvernd að gera. Alls kynnir skýrsluhöfundur 17 umbótatillögur sem meðal annars gera ráð fyrir fjölgun dýraeftirlitsfólks og hertari aðgerðum gagnvart þeim sem uppvísir verða að því að brjóta lög um dýravelferð. Góðar umræður spunnust um tillögurnar (sjá skýrsluna hér) og var samhljómur um að halda samtalinu áfram enda brýn nauðsyn á að bæta verulega eftirlit með dýravelferð. Í pallborði sátu Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun, Einar Örn Thorlacius lögfræðingur hjá Matvælastofnun, Ása Þórhildur Þórðardóttir skrifstofustjóri á skrifstofu landbúnaðar hjá matvælaráðuneyti, Sigtryggur Veigar Herbertsson sérfræðingur í dýravelferð, Ágúst Ólafur Ágústsson lögfræðingur og hagfræðingur, Linda Karen Gunnarsdóttir formaður DÍS og Anna Berg Samúelsdóttir stjórnarmaður í DÍS og fulltrúi sambandsins í fagráði um velferð dýra. Svandís sagðist innan tíðar leggja fyrir Alþingi tillögur til þingsályktunar um annars vegar matvælastefnu og hins vegar landbúnaðarstefnu. Í drögum að þeim báðum er undirstrikað að framleiðsluhættir eigi að vera þannig að heilsa, velferð og aðbúnaður séu höfð að leiðarljósi. Stjórn DÍS þakkar Ágústi Ólafi fyrir mikla og góða vinnu við gerð skýrslunnar og bindur vonir við að þessi greinargóða úttekt um stöðu búfjáreftirlits og leiðir til úrbóta verði grunnur að framsæknum ákvörðunum sem leiði til bættrar dýravelferðar í landinu. Dýraverndarsamband Íslands Comments are closed.
|