Fundað með MAST um skýrslu DÍS - Bætt dýravelferð, staða og tillögur til úrbóta
10. júní 2023
Stjórn Dýraverndarsambandsins (DÍS) átti fund með Matvælastofnun (MAST) föstudaginn 9. júní. Tilefni fundarins var að ræða nánar niðurstöður úttektarinnar sem Ágúst Ólafur Ágústsson lög- og hagfræðingur vann fyrir DÍS um reynslu af búfjáreftirliti ásamt tillögum til úrbóta og var kynnt á málþingi sem haldið var í Öskju 14. mars s.l. Hér má lesa skýrsluna.
Um er að ræða 17 tillögur til úrbóta en áhersla var lögð á að ræða eftirfarandi tillögur á fundinum og viðbrögð MAST við þeim:
Tillaga nr. 1
Setja á fót Dýravelferðarstofu Íslands og þannig aðskilja eftirlit með dýravelferð frá starfsemi MAST. Þannig yrði dýravelferð gert hærra undir höfði og klippt yrði á hugsanleg hagsmunatengsl matvælaframleiðslu og dýravelferðar.
Tillaga nr. 2
Leyfisskylda allt búfjárhald á Íslandi.
Tillaga nr. 5
Auka þarf eftirlitstíðni nýrrar Dýravelferðarstofu, ekki síst óboðað eftirlit með alifuglum og svínum sem er langt um sjaldgæfara en þegar kemur að öðrum dýrategundum.
Tillaga nr. 6
Tryggja skilvirka og skjóta verkferla og aukinn málshraða þegar kemur grunur um illa meðferð á dýrum.
Á fundinum var einnig farið yfir stöðu mála að Höfða í Borgarbyggð og er málið í ferli. DÍS árétti að staða sem þessi væri óviðunandi og að úrbætur þyldu enga bið.
Til baka