![]() ,,Auðgandi áhrif dýra á líf manna", var yfirskrift málþingsins, sem var vel sótt. Helstu niðurstöður eru ótvíræð góð áhrif návistar dýra á heilsu manna, bæði líkamleg og andleg. Ýmis dýr eru haldin í auknum mæli til að auðga líf fólks sem er einangrað og einmana. Til dæmis um það sem finnst hér á Íslandi má nefna Hundavini Rauða Krossins, en Kópavogsdeild félagsins heldur utan um úrræðið. Það eru hundaeigendur sem fara í heimsókn með hundana sína til einstæðinga og dýrin eru þar ómetanlegur þáttur endurgjafar í samskiptum. Á dvalar- og hjúkrunarheimilunum Ási og Mörk, er gert ráð fyrir dýrum, enda halda bæði heimilin dýr, og starfsfólk kemur með dýr til vinnu. Bæði umsjónarmenn heimilanna og ættingjar heimilismanna segja að gildi dýranna sé mikið fyrir heimilisfólkið - ómetanleg návist og vinátta. Þetta er nýmæli, en við erum að átta okkur betur á meðferðargildi dýra og hversu auðgandi þau eru í lífi manna. Einnig erum við að láta af fordómum; dýr eru félagar okkar mannanna. Þau okkar sem halda selskapsdýr þekkja þetta vel, bændur sem huga vel að velferð dýra sinna þekkja þetta vel, við þurfum ekki að láta segja okkur þetta. En það er samt gott að rannsóknir hafi verið gerðar sem sýna m.a. fram á lengri lífstíma, minnkaðan einmanaleika og þunglyndi, meiri félagslega virkni, lækkaðan blóðþrýsting og minnkun á hjartakvillum - og ekki síst minnkaða streitu - allt fyrir áhrif dýranna. Í framsögu voru dýravinirnir Margrét Björk Sigurðardóttir dýraatferlisfræðingur, Kristján Oddson bóndi, Valgerður Valgarðsdóttir hjá Dýrahjálp Íslands og Dagmar Vala Hjörleifsdóttir dýralæknir. Ríflega þrjátíu manns sátu í sal og það er vissulega mikils virði að halda atburð þar sem dýravinir geta komið saman til þess að eiga ánægjulegt samtal um málefni dýra. Í félagi eins og Dýraverndarsambandi Íslands er nauðsynlegt að sinna einnig þeim þætti sem í raun kallar á krafta okkar í þágu dýravelferðar: það er væntumþykja gagnvart dýrum. Það er hins vegar líka alltaf nauðsynlegt að halda áfram að vinna að bættum skilyrðum og velferð dýra og ekki veitir af, nú sem áður. Við skulum ekki gleyma því að við erum öll hluti af stórri heild og að dýrin eru þar mikils virði. Þess vegna er nauðsynlegt að við gerum betur ráð fyrir þeim, að við kynnum okkur vel þarfir þeirra og tjáningu - og að við sem samfélag, öxlum ábyrgð á velferð þeirra. Hægt er að ganga í félagið með því að senda tölvupóst á dyravernd@dyravernd.is. Árgjald er 3000 krónur og fá félagar sent til sín tímaritið Dýraverndarann sem gefið er út af félaginu árlega. En fyrst og fremst lýsir þú því yfir með því að ganga í félag sem DÍS, að þú lætur þig velferð dýra á Íslandi varða. DÍS. Comments are closed.
|