ÁKALL Dýraverndarsambands Íslands til yfirvalda að bjarga dýrum í sárri neyð!

8. maí 2024

Ástand dýra á bænum Höfða í Þverárhlíð í Borgarbyggð er grafalvarlegt. Sauðféð er í miklum vanhöldum og er það að hluta komið út fyrir girðingar þar sem engin beit er við bæinn. Ærnar eru margar að bera án eftirlits sem er brot á reglugerð 1066/2014 um velferð sauðfjár og geitfjár. Nýborin lömb eru að finnast dauð og deyjandi á svæðinu úr vosbúð. Sauðféð er jafnframt margt orðið veikt og ein ær hefur fundist dauð.

Um er að ræða mál þar sem dýr hafa verið látin þjást árum saman meðan málið er í ferli hjá yfirvöldum sem tryggja ekki velferð þessara dýra. 

Stjórn Dýraverndarsambandsins (DÍS) hefur haft samband við Matvælastofnun (MAST) vegna málsins sem segir málið í ferli. Um er að ræða dýr í sárri neyð og verður stofnunin að bregðast við án tafar. MAST er hér ekki að sinna lögbundnu hlutverki sínu að verja velferð dýra og hefur DÍS sent ábendingu þess efnis til umboðsmanns Alþingis.

Að MAST sem ein fer með eftirlit með velferð dýra í landinu bregðist hér lögbundnu hlutverki sínu gagnvart dýrum í neyð er alvarlegt mál. Í stjórnsýsluúttekt ríkisendurskoðunar um eftirlit MAST með velferð búfjár segir m.a. að nálgun stofnunarinnar sé í sumum tilfellum svo varfærnisleg að hún gangi í raun gegn markmiðum laga 55/2013 um velferð dýra. Það er lagaleg skylda MAST að koma dýrum í neyð til bjargar, það er ekki síður siðferðisleg skylda samfélagsins alls. 

Það er ákall frá stjórn DÍS að dýrunum að bænum Höfða í Þverárhlíð verði tafarlaust komið til bjargar og lífs með því að yfirvöld bregðist við. Málið þolir enga bið, í húfi er velferð, líf og heilsa dýranna á Höfða. 

Stjórn Dýraverndarsambands Íslands

Til baka

Previous
Previous

Framboð til stjórnar DÍS

Next
Next

Aðalfundur DÍS 2024