Yfirlýsing frá Dýraverndarsambandi Íslands vegna ákvörðunar matvælaráðherra að leyfa hvalveiðar11/6/2024
Dýraverndarsamband Íslands (DÍS) harmar og lýsir vonbrigðum með þá ákvörðun matvælaráðherra að heimila hvalveiðar í sumar. Ráðherra kynnti ríkisstjórn ákvörðun sína í morgun að heimila veiðar á samtals 128 langreyðum og er leyfið veitt til eins árs. Ráðherra segist bundinn af lögum um hvalveiðar sem eru frá árinu 1949 og hendur hennar séu því bundnar. DÍS ítrekar þá áður framkomnu kröfu sambandsins að hin löngu úreltu lög um hvalveiðar verði afnumin eða þeim breytt verulega til nútímahorfs hið allra fyrsta. Fyrir liggur afstaða Matvælastofnunar og fagráðs um velferð dýra að veiðarnar séu ýmist ekki í anda laga um dýravelferð né að unnt sé að veiða stórhvali þannig að ákvæði laga um dýravelferð séu yfirleitt uppfyllt. Hvalveiðar eru algjör tímaskekkja í nútímasamfélagi enda eru veiðar á stórhvölum aðeins stundaðar í einu ríki í heiminum og það af einu fyrirtæki sem heitir Hvalur hf. Þótt það sé í sjálfu sér jákvæð breyting að ekki sé veitt leyfi lengur en til eins árs í stað fimm áður og að veiðikvótinn sé minnkaður umtalsvert þá er þetta engu að síður svartur dagur fyrir dýravelferð á Íslandi. Dýraverndarsamband Íslands skorar á stjórnvöld og Alþingi að ganga nú án tafar í það nauðsynlega verkefni að afnema eða breyta í grundvallaratriðum lögum um hvalveiðar þannig að þessar ómannúðlegu veiðar heyri sögunni til hið allra fyrsta. Stjórn Dýraverndarsambands Íslands Comments are closed.
|