Ný reglugerð sem sniðin er að þörfum vergangs- og villikatta er loksins að líta dagsins ljós. Týndar heimiliskisur sem eru ómerktar á vergangi eða kisur sem hafa átt kettlinga utan heimilis sem verða villikisur á vergangi, hafa notið lítils skjóls í okkar samfélagi nema fyrir frábæra vinnu dýravina undanfarin ár. Félagið Villikettir og aðrir álíka hópar hafa fangað þessar kisur og látið gelda þær til að stemma stigu við offjölgun þeirra og á sama tíma hugað að því að útbúa skjól og gefa þeim mat, þar sem þær halda til þegar þeim er sleppt aftur. Jafnframt hefur fjöldi týndra kisa ratað heim aftur við þetta starf, auk þess sem heimili eru fundin fyrir þær villtu kisur sem hægt er að gera mannvanar, venjulega kettlinga eða fyrrum heimiliskisur. Þessi starfsemi er að erlendri fyrirmynd og markmiðið er að afleggja villikattabyggðir, en með mannúðlegum hætti. Nauðsynlegt var að skilgreina umboð til þessa dýravelferðarstarfs, en samkvæmt reglugerð um velferð gæludýra var hreinlega ekki gert ráð fyrir villikisum. Það er fyrir þrotlausa samstillta baráttu fjölda dýravina sem þessi reglugerð lítur dagsins ljós. Engin formleg viðmið eða umboð voru áður fyrir hendi til að hjálpa þessum kisum. En reglugerðin varð algerlega nauðsynleg þegar Matvælastofnun ákvað að ekki væri unnt að leyfa starfsemina áfram eftir að unnið hafði verið eftir aðferðinni í þrjú ár. Dýrvinir urðu að finna lausn og úr varð að skora á ráðherra að setja reglugerð sem gerði þetta starf kleift. Meðal annars skrifuðu þúsundir undir undirskriftasöfnun DÍS þar sem skorað var á ráðherra að setja þessa reglugerð. Við skulum ekki vanmeta samtakamátt dýravina og hér hafa kisuvinir sannarlega lagst á eitt, með frábærum árangri. Við hvetjum almenning til að láta sig varða málefni vergangskisa og styðja við starf í þeirra þágu. Hægt er lesa reglugerðina hér að neðan , einnig er hægt að sækja drögin að reglugerðinni hér. Comments are closed.
|