Ríkisendurskoðun hefur birt skýrslu um eftirlit Matvælastofnunar (MAST) með velferð búfjár. Niðurstaða skýrslunnar er í grundvallaratriðum í takti við þá úttekt sem DÍS lét vinna veturinn 2022-2023 og kynnt var í mars sl., ,,Bætt dýravelferð’’. Fram kemur í skýrslu DÍS að gefnir séu ítrekaðir frestir til betrumbóta og dýrin því látin þjást sem er andstætt lögum um velferð dýra. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir eftirfarandi: ,,MAST þarf að leggja aukna áherslu á að stjórnsýsluleg framkvæmd verði ekki á kostnað velferðar dýra.” Að mati DÍS er bráðnauðsynlegt að fjölga dýraeftirlitsmönnum og að eftirlitstíðni verði aukin til að eftirlitið virki á fyrirbyggjandi hátt og veiti aðhald. Of langur tími líður milli eftirlitsheimsókna almennt í búfjárhaldi og auka þarf sömuleiðis eftirlit með þauleldi. Í skýrslu DÍS er jafnframt bent á að málshraði þarf að vera mun meiri og dýrin eigi að njóta vafans sem er sama niðurstaða og í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Að mati DÍS þurfi að færa eftirlit með velferð dýra frá MAST og koma eftirlitinu fyrir í sérstakri Dýravelferðarstofu, til að styrkja dýravelferðaráherslur og koma í veg fyrir þá hagsmunaárekstra sem felast í því að hafa dýravelferð og matvælaeftirlit undir sama hatti. Það sést einna best á því að halaklippingar á grísum eru enn framkvæmdar hér á landi í stórum stíl af hálfu svínabænda og MAST upplýst um það - þó slíkt sé bannað með lögum - en stofnunin bregst ekki við. Það er von DÍS að þessi úttekt Ríkisendurskoðunar verði, ásamt með úttekt DÍS fyrr á árinu, til þess að nauðsynlegar breytingar verði gerðar í þágu dýravelferðar. Stjórn DÍS Comments are closed.
|