Dýraverndarsamband Íslands og Dýrahjálp Íslands sendu bréf til bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs í gær, sunnudaginn 17. febrúar og óskuðu eftir að sveitafélagið endurskoðaði nálgun sína varðandi föngun og aflífun yfirgefinna katta. Svar barst í morgun þar sem fram kemur að aðgerðum verði ekki frestað, en reynt verði að finna heimili fyrir kisurnar. Það er skref í rétta átt, en eftir sem áður teljum við eðlilegt að málefni yfirgefinna katta fái betri farveg en svo að sífellt fjölgi kisunum aftur á milli ára. Við biðjum dýravini að halda áfram að láta sig málið varða, fylgjast með framvindu þess og til að hvetja bæjarstjórnina til að velja betri leiðir en veiðar og aflífanir, aðferðir sem ættu að heyra fortíðinni til. Hér er bréfið sem Dýraverndarsambandið og Dýrahjálp Íslands sendu : Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs Lyngási 12 700 Egilsstaðir Reykjavík, 17. febrúar 2019 Ósk um frekari viðræður og frestun á fyrirhuguðum aðgerðum vegna yfirgefinna katta Dýraverndarsamband Íslands og Dýrahjálp Íslands eru frjáls félagasamtök sem beita sér fyrir aukinni velferð dýra á Íslandi. Dýraverndarsambandið hefur starfað frá árinu 1914 og beitir sér m.a. fyrir bættri löggjöf, eftirfylgni og úrræðum í þágu dýra. Dýrahjálp Íslands hefur starfað frá árinu 2008 og hýsir og finnur heimili fyrir dýr í neyð frá einstaklingum sem og opinberum aðilum. Bæði félögin lýsa yfir áhyggjum vegna nálgunar bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs, en svo virðist sem gengið sé út frá að dýravelferð felist í að leggjast reglubundið í markvissa útrýmingu yfirgefinna katta í sveitafélaginu. Hér er vitnað til orðalags á heimasíðu og facebooksíðu sveitarfélagsins þar sem áréttað er að velferð dýra sé höfð að leiðarljósi við þær aðgerðir. Þvert á móti teljum við að um sé að ræða dýr í vanda sem ætti að hjálpa ef ætlunin er að huga að velferð þeirra. Við bendum einnig á að dæmin sýna að skipulegar aflífanir eru ekki til þess fallnar að stemma stigu við fjölgun og tilvist slíkra katta og bendum því góðfúslega á að kominn sé tími til að huga að öðrum leiðum. Hjálp til kattanna stendur til boða af hálfu frjálsra félagasamtaka sem vinna að því að stemma með mannúðlegum hætti stigu við villikattabyggðum eftir alþjóðlegri fyrirmynd og svo virðist sem til grundvallar synjunar sveitarfélagsins á þeirri aðstoð liggi aðallega bréf frá starfsmanni Matvælastofnunar. Í bréfinu virðist ráðandi sú túlkun að líta á ketti í slíkum vandræðum sem meindýr sem þurfi að losna við en kettir eru auðvitað ekki meindýr og ætti ekki að líta á þá sem slíka. Hryggilegt tómlæti hefur lengi ríkt gagnvart vanda yfirgefinna katta á Íslandi. Bæði gömul og ný félög dýravina hafa lengi barist fyrir aukinni velferð katta m.a. með því að finna þeim ný heimili eða minna eigendur þeirra á ábyrgð sína, svo eitthvað sé nefnt. Á síðari árum varð félagið Villikettir til og hefur beitt sér beint í þágu þessara yfirgefnu katta. Ein jákvæð afleiðing af því starfi er að fjöldi týndra katta hefur ratað heim til sín eða verið fundið nýtt heimili enda eru fæstir þeirra katta sem nást í búr í raun villikettir. Því miður liggur meindýrshugtakið enn undir í umræðu um þá ketti sem raunverulega eru villtir og tregða hefur verið til að hjálpa þeim, enda vandinn flókinn. En með tilkomu Villikatta hefur þetta breyst og enda þótt við skiljum að það mat bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs að taka ekki upp samvinnu, sé byggð á þeim upplýsingum sem hún fékk, teljum við eðlilegt að leita álits fleiri aðila og afla fyllri upplýsinga. Jafnframt bendum við á að mörg sveitarfélög hafa þegar tekið upp samvinnu við félagið og árangur af því samstarfi er góður. Fagráð um velferð dýra, sem er Matvælastofnun til ráðgjafar um stefnumótun í málefnum dýra, veitti aðferð félagsins Villikatta einnig jákvæða umsögn. Hvað varðar þá túlkun starfsmanns Matvælastofnunar að ekki sé heimilt samkvæmt lögum um velferð dýra að hlúa að yfirgefnum köttum þar sem þeir halda til og hafa sýnt að þeir geta lifað af og þar með að stemma stigu við fjölgun þeirra með mannúðlegum hætti, verður að benda á að þar er gengið út frá viðmiðum sem eiga við um heimilisketti en öllum ætti að vera ljóst að önnur eða þriðja kynslóð yfirgefinna katta eru ekki heimiliskettir. Þessir kettir falla algerlega á milli stafs og hurðar hvað velferð þeirra sjálfra varðar eins og málum er skipað í dag og slagsíðan er í átt að skilgreina þá sem meindýr eins og áður er nefnt. Undirskriftarsöfnun er nú í gangi á vegum Dýraverndarsambands Íslands á heimasíðu félagsins, þar sem óskað er eftir að ráðherra setji reglugerð sem leyfi líknandi starfsemi á borð við þá sem félagið Villikettir beitir og við teljum að dýravinir á Íslandi hljóti að láta sig varða velferð þessara yfirgefnu katta með öðrum hætti en þeim að telja rétt að ráðast stöðugt í skipulegar aflífanir gagnvart þeim. Jafnframt býðst Dýrahjálp Íslands til að ræða við aðila máls um mögulega aðkomu að því að aðstoða þessa ketti, í samvinnu við bæjarstjórnina eða félagið Villiketti, eftir atvikum. Við erum að biðja um frest á aðgerðum til þess að þetta samtal geti átt sér stað og að fleiri sjónarmið liggi til grundvallar ákvörðunar bæjarstjórnarinnar. Við bendum loks á að bréf starfsmanns Matvælastofnunar hljóti að vera byggt á túlkun lögfræðinga stofnunarinnar en við teljum þá túlkun ekki í anda gildandi laga um velferð dýra. Ásetningur löggjafans við gerð laganna var aukin velferð dýra og aukin tillitssemi í þeirra garð. Markmið laganna ber að hafa að leiðarljósi við framkvæmd og skýringu þeirra. Þetta er tiltekið sérstaklega í athugasemdum við 1. gr. frumvarpsins til laganna. Þar er að auki bent á að í markmiðum laganna felist viðurkenning á því að dýr eigi sjálfstæðan tilverurétt auk þess sem fram kemur „viðurkenning á því að dýr séu skyni gæddar verur sem geta fundið til sársauka og vanlíðunar og að taka beri tillit til þess við alla ráðstöfun þeirra, umönnun og meðhöndlun.“ Af tveim erfiðum kostum teljum við í öllu falli ljóst að það sé fremur í anda gildandi laga um velferð dýra að stemma stigu við fjölgun villikatta með aðferð félagsins Villikatta heldur en með skipulegri aflífun á þeim. Hallgerður Hauksdóttir, Valgerður Valgeirsdóttir, formaður Dýraverndarsambands Íslands formaður Dýrahjálpar Íslands Bréfinu má hlaða niður hér. Comments are closed.
|