Aðalfundur Dýraverndarsambandsins var haldinn í Norræna húsinu laugardaginn 10. mars síðastliðinn. Margt gagnlegt var þar rætt, ný stjórn félagsins kjörin, samþykkt voru endurskoðuð lög fyrir starfsemi félagsins og einnig var skýrsla stjórnar fyrir árin 2010-2012 kynnt, en skýrsluna er að finna hér á síðunni og hvetjum við fólk til að kynna sér hana.
Mæting var afar góð, en vel á annað hundrað manns mættu og sátu margir allan fundinn. Skráðir félagar sem mættu og fengu kjörseðil voru 134, sem raunar er rétt um helmingur félagsmanna og er það ánægjulegt. Ólafi Dýrmundssyni, sem stóð formannsvaktina um árabil voru færð blóm og þakkir fyrir óeigingjarnt starf í þágu dýra. Stjórn Dýraverndarsambandsins fagnar þeim áhuga sem finna má í vaxandi mæli um málefni dýra, bæði með aukinni þátttöku í félagasamtökum eins og okkar og einnig almennt í samfélaginu. Að vera dýravinur er alls óháð stétt eða stöðu manna, okkur er að finna alls staðar á landinu, í öllum starfstéttum og stjórnmálaflokkum, í dreifbýli jafnt sem þéttbýli, enda er flestum mönnum í blóð borið að vilja verja þá sem minni máttar eru, svo sem dýrin, en þau fara iðulega fara halloka ef maðurinn beitir sér gegn þeim. Hin nýja stjórn mun halda áfram með það góða starf sem lagður hefur verið grunnur að og vill efla og kynna félagið sem best. Við hvetjum þá sem velviljaðir eru málefnum dýra til að skrá sig í félagið og styrkja þannig vægi DÍ og rödd í íslensku samfélagi. Dýraverndarsamband Íslands hvílir á gömlum grunni enda brátt aldar gamalt. Svo sem þroska þess hæfir er félagið í framsögn ætíð hófstillt og málefnalegt, en jafnframt ötult og beint í baki. Við látum ekki deigan síga og vissulega eru næg verkefni framundan. Fundargerð aðalfundarins verður birt hér um leið og ritari hefur lokið störfum. Comments are closed.
|