Til stöðu formanns til eins árs barst eitt framboð:
Kæru félagar í Dýraverndarsambandi Íslands, Ég, Linda Karen Gunnarsdóttir gef kost á mér til formanns Dýraverndarsambands Íslands (DÍS) til eins árs. Ég er hestafræðingur að mennt, með B.Sc. í hestafræðum frá LbhÍ og Háskólanum á Hólum. Velferð dýra hefur ávallt verið mér hugleikin og ég hef mikinn áhuga á allri bætingu í þágu dýra. Ég þekki félagið og starfsemi þess vel þar sem ég hef komið að uppbyggingu og starfi félagsins til fjölda ára. Ég sat í stjórn DÍS og var fulltrúi þess í dýraverndarráði hjá Umhverfisstofnun á árunum 2007-2012. Ég kom að endurreisn félagsins með Ólafi Dýrmundssyni á þessum árum, en hann tók við sem formaður DÍS eftir fráfall Sigríðar Ásgeirsdóttur, þáverandi formanns sem hafði haldið vel utan fjármál félagsins og sinnt verkefnum þrátt fyrir háan aldur. Ég gaf aftur kost á mér til stjórnarsetu 2014-2017. Á árunum 2008-2010 var ég fulltrúi félagsins í Norræna dýraverndarráðinu (Nordisk Dyrebeskyttelsesråd) og árið 2013 fulltrúi þess í starfshóp á vegum Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis sem vann tillögu að nýrri aðbúnaðarreglugerð fyrir hross. Dýraverndarsamband Íslands er aldargamalt félag sem hefur haft þýðingarmikið hlutverk fyrir bætta velferð dýra hér á landi. Félagið hefur mikilvægt hlutverk varðandi að veita stjórnsýslunni aðhald í málefnum dýravelferðar og er sýnilegt hversu mikil vöntun er á rödd félagsins í samfélaginu. Það er brýnt að endurvekja Dýraverndarsambandið í sínu hlutverki en það hefur verið í mikilli lægð undanfarin ár. Ég vona að ég hljóti traust félaga til þess að leiða þetta góða félag dýravina. Linda Karen Gunnarsdóttir __________________________________________________________________________________ Til stöðu ritara til tveggja ára barst eitt framboð: Góðan daginn Ég undirrituð býð mig fram í embætti ritara í stjórn DÍS til tveggja ára. Ég hef áður setið í stjórn sem meðstjórnandi og var það árið 2016-2017. Ég sat sem varamaður í Dýraverndarráði og var í nefnd sem samdi reglugerð um gæludýr. Ég er líffræðingur að mennt með dýraatferlisfræði sem sérgrein. Ég er nýkomin á eftirlaun eftir að hafa verið í föstu starfi háskólakennara í Kennaraháskóla Íslands/ Menntavísindasvið HÍ 1982- 2020, sem lektor, dósent og prófessor ( frá 1998). Mest hef ég kennt um dýr og vistfræði. Ég sá árum saman um námskeið í dýraatferlisfræði, bæði í líffræði við HÍ, í kennaranámi og við Hólaskóla. Ég hef stundað rannsóknir á hegðun dýra, mest hestum, en einnig skordýrum og fiskum. Ég hef alla tíð verið heilluð af dýrum, var í sveit á sumrin alla mína bernsku og hef átt ketti og hesta síðustu 30 árin. Mér er velferð allra dýra hugleikin og tel mikilvægt að vinna að bættri velferð þeirra. Að mínu mati þarf sérstaklega að berjast fyrir því að farið verði eftir því ákvæði í dýraverndarlögum að dýr eigi að geta uppfyllt félagslegar þarfir sínar auk þeirra líkamlegu. Mikið vantar upp á slíku eftirliti sé sinnt. Ég hef verið virk í náttúruverndarmálum sem óneitanlega tengjast oft dýravelferð. Ég hef tvisvar setið í stjórn Landverndar, var formaður stjórnar Reykjanesfólkvangs í 4 ár og er nú varaformaður Hins íslenska náttúrufræðifélags. Ég hef birt margar greinar í erlendum vísindatímaritum og nokkrar í Náttúrufræðingnum, m.a grein um hegðun hesta og velferð þeirra árið 2019. Sjá nánar um feril minn og störf á Wikipediu - https://is.wikipedia.org/wiki/Hrefna_Sigurj%C3%B3nsd%C3%B3ttir Reykjavík 29.júlí 2022 Hrefna Sigurjónsdóttir __________________________________________________________________________________ Til stöðu gjaldkera til tveggja ára barst eitt framboð: Góðan daginn. Hér með tilkynni ég framboð mitt í stjórn Dýraverndarsambands Íslands sem gjaldkeri til tveggja ára. Ég fæddist 1958 í svissnesku alpafjöllum og ólst upp með íslenskum hestum. Flutti til Íslands 1982 þegar ég 24 ára, lærði grafíska hönnun við Myndlista-og handiðaskólaí Íslands, útskrifaðist þaðan 1987. En svo höfðu hrossin vinninginn. Ég er tamningamaður FT og hef alla tið talað fyrir það að farið sé vel með hrossin. Velferð og verndun dýra hefur verið mitt hugarefni frá því að ég man eftir mér. Hef verið félagi DÍS frá 2015. Ég varð meira og meira fyrir vonbrygðum með starfsemi DÍS þ.e. hvernig þetta félag starfaði, eða réttara sagt starfaði ekki. Þetta var ekki lengur í anda Ingunnar Einarsdóttur sem lagði grunninn að DÍS - var drífandi og óhrædd að standa fyrir sinum málstað, hafa velferð dýra alltaf í fyrsta sæti. Það eru mörg verkefni sem þarf að sinna - t.d eitthvað sem er ekki mikið talað um, gamlar gyrðingardræsur á Austrurlandinu, sem eru dauðagildrur fyrir hreindýrin. Á hálendinu hanga margar beinagrindur í þessum girðingum. Með góðri kveðju , Marietta Maissen __________________________________________________________________________________ Til stöðu meðstjórnanda til tveggja ára barst eitt framboð: Gott kvöld, Hér með tilkynnist um framboð mitt sem meðstjórnandi í Dýraverndarsambandi Íslands til tveggja ára. Sigursteinn R Másson Ég hef unnið að dýravelferðarverkefnum frá árinu 2003 þegar ég hóf að starfa með Alþjóðadýravelferðarsjóðnum(IFAW) á Íslandi. Frá árinu 2012 var ég fulltrúi og talsmaður sjóðsins bæði á Íslandi og í Noregi. Störf mín hafa aðallega snúist um sjávarspendýr, þá ekki síst hvali. Um tíma var ég í stjórn Dýraverndarsambands Íslands. Ég tel mikla þörf á að Dýraverndarsamband Íslands verði öflugari rödd í hagsmunabaráttu fyrir velferð dýra. Saga sambandsins og hlutverk í gegnum tíðina hefur skipt miklu máli og mikilsvert að koma félaginu upp úr þeiriri lægð sem það hefur verið í undanfarin ár. Stærstu verkefnin á næstunni tel ég vera aukin verndun villtra dýra, bann við hvalveiðum, bættur aðbúnaður búfénaðar sem og bann við blóðmerahaldi. Með kveðju, Sigursteinn __________________________________________________________________________________ Til stöðu tveggja meðstjórnenda til eins árs hvor bárust tvö framboð: Hér með tilkynnist um framboð mitt sem meðstjórnandi í Dýraverndarsambandi Íslands til eins árs. Ég hef mikinn áhuga á félagsmálum og þjónustumiðuð hagsmunagæsla rennur eins og rauður þráður í gegnum feril minn. Ég hef mikla reynslu af verkefnastjórnun og fræðslumálum. Reynsla mín af stjórnarstörfum stafar frá setu í stjórn Íbúasamtaka Kjalarness, Dýraverndarsambands Íslands (2015-16) og Neytendasamtakanna (2008-2014 og frá 2020 sem gjaldkeri stjórnar). Ég hef unnið að dýravelferðarverkefnum hjá Djurens rätt í Svíþjóð og hjá Dýrahjálp Íslands til margra ára. Upp á síðkastið hefur verið ákveðin vakning í dýravelferðarmálum á Íslandi, en enn er því miður breytingar til batnaðar nauðsynlegar, eins og hörmuleg nýleg dæmi sýna svo glöggt. Þá tel ég mikla þörf á öflugari rödd í samfélagsumræðunni um dýravernd. Þar er hlutverk sambandsins mjög mikilvægt. Ég er Svíi, en hef verið búsett á Íslandi síðan 1997. Ég er lögfræðingur að mennt, en að mínu mati er greiningarhæfileiki og heilbrigð skynsemi meðal minna helsta kosta, kostir sem ekki er hægt að afla sér með menntun. Með kveðju, Liselotte Widing __________________________________________________________________________________ Ég, undirrituð, býð mig fram sem meðstjórnanda í stjórn Dýraverndarsambands Íslands (DÍS). Meðfylgjandi er kynningarbréfi um ástæður framboðs og bakgrunn minn. Ein helsta ástæða framboðs til stjórnarsetu í stjórn DÍS er áhugi minn á öllu er viðkemur velferð dýra. Í áratugi hef ég, bæði í leik og starfi, komið að dýravelferðarmálum s.s. björgun villtra dýra í gegnum starf mitt sem umhverfisstýra hjá Fjarðabyggð og svo í gegnum áhugamál mitt sem er hestamennska þar sem ég hef því miður orðið vitni af illri meðferð dýra sem ég tilkynni undantekningalaust. Mín áherslumál í dýravelferð er m.a. að seinka veiðum á hreindýrakúm frá ungum kálfum sínum en í dag er leyfilegt að skjóta hreindýrakýr frá og með 1. ágúst, en seinka þarf því hið minnsta um 14 daga. Bannað þarf grenjavinnslu refa, en það er óhugnalegt til þess að hugsa að refalæður séu drepnar frá ungum hvolpum sínum með tilheyrandi afleiðingum. Stöðva þarf svo með öllu; óhugnað í blóðmerahaldi, geldingu hrúta án deyfingar og öfgafullar sýningarkröfur á unghrossum. Önnur mál sem mér eru jafnframt hugleikin og hef áhuga á að vera þáttakandi í er að fá stöðvaðar hvalveiðar og litið verði til stöðu velferðar eldisdýra í þauleldi s.s. svína, alifugla og laxfiska. Ég hef víðtæka menntun sem og starfsreynslu til að vera meðstjórnandi í stjórn DÍS. Ég er búfræðingur að mennt, með landbúnaðartæknifræðipróf frá Dalum Tekniskeskole í Óðinsvéum, BS í náttúrufræðum LbhÍ og á bara 2 próf eftir til að ljúka annarri BS gráðu í búvísindum frá sama skóla. Haustið 2015 útskrifaðist ég með mastersgráðu í landfræði frá HÍ. Mastersverkefnið heitir: Íslenskur landbúnaður og velferð búfjár: Viðhorf almennings, birtingarmynd hagsmunaaðila og kauphegðun neytenda. Ein af helstu niðurstöðum rannsóknarinnar var að almenningur er fákunnandi um raunstöðu á meðferð og aðbúnaði búfjár. Á árunum 2011-2014 var ég virk í starfi DÍS, sinnti um tíma m.a. hlutastarfi hjá félaginu. Frá því 2016 hef ég sinnt starfi sem umhverfisstýra hjá sveitarfélaginu Fjarðabyggð. En sveitarfélög eiga stóra aðkomu að verndun og velferð villtra dýra og var sá málaflokkur á minni ábyrgð ásamt landbúnaðar- og gæludýramálum. Í ágúst hef ég störf hjá MATÍS sem sérfræðingur í sjálfbærri matvælaframleiðslu og nýsköpun. Með ofangreindu hef ég gert grein fyrir því hver ég er og hvað ég stend fyrir. Viðringarfyllst, Anna Berg Samúelsdóttir __________________________________________________________________________________ Ein lagabreytingatillaga barst: 5. gr. Reikningsár sambandsins er almanaksárið. Stjórn velur viðurkenndan fagaðila sem sér um gerð ársreikninga sambandsins. verði: Reikningsár sambandsins er almanaksárið. Stjórn velur viðurkennda fagaðila utan stjórnar sem sjá um bókhald og gerð ársreikninga sambandsins. ________________________________________________________________________________ Framboð og lagabreytingatillögur liggja fyrir á aðalfundinum næsta sunnudag, Hlökkum til að sjá ykkur, stjórn DÍS. Comments are closed.
|