Margt um málefni dýra skýrðist og batnaði með nýjum lögum númer 55/2013, en þau voru samþykkt í apríl 2013 og tóku gildi um síðustu áramót Þegar Dýraverndarsambandið vann að umsögnum um lögin var lögð þung áhersla á að sérstök breyting frá upprunalegu drögunum - sem gerð var inni í ráðuneyti áður en frumvarpið var lagt fram - gengi ekki í gegn. Við töldum og teljum enn óforsvaranlegt að þá var bætt inn í lögin undanþágu til að drekkja mætti mink, einum dýra. Margir fleiri gerðu athugasemd við þetta, m.a. MAST, sem taldi það ekki samrýmast meðalhófsreglu. Nú er drekking ólögleg aflífunaraðferð því hún telst ómannúðleg og valda dýrum kvölum. Í 21. gr. segir um aflífun: ,,Dýr skulu aflífuð með skjótum og sársaukalausum hætti… “ og: ,,Forðast skal að valda dýrum óþarfa þjáningu eða hræðslu. (…) Óheimilt er að aflífa dýr með því að drekkja þeim nema um sé að ræða gildruveiði minka …. “ Hér er ein dýrategund tekin út fyrir sviga og drekking á þeim leyfð. Þetta er gert fyrst og fremst til þess að spara fjármuni! DÍS leggst ekki gegn veiðum á villtum dýrum sem slíkum. Við vitum líka vel að halda þarf mink í skefjum, enda er hann ekki upprunalegur í vistkerfi Íslands og veldur þar ýmsum usla. En við leggjumst eindregið gegn að ótilhlýðilegum og ósiðlegum aðferðum sé beitt við veiðar, sama hvaða dýr er veitt. Í 27. grein um veiðar segir: ,,Ávalt skal staðið að veiðum þannig að það valdi dýrunum sem minnstum sársauka og aflífun þeirra taki sem skemmstan tíma. (…) Við veiðar er óheimilt að beita aðferðum sem valda dýri óþarfa limlestingum eða kvölum.” Jafnframt segir í 28. grein um meindýr: ,,Við eyðingu meindýra er óheimilt að beita aðferðum sem valda þeim óþarfa limlestingum eða kvölum.” Það er erfitt að sjá hvernig undanþága um drekkingu minka getur staðist þegar hún gengur jafn freklega gegn anda og markmiði laganna. Hvernig hægt er að rökstyðja það að ekki megi valda dýrum kvölum eða ótta við aflífun – nema minkum – er beinlínis óskiljanlegt. Jafnframt þessu er um að ræða dýr sem við berum sjálf ábyrgð á að gengur hér villt: minkar voru ekki til í íslenskri náttúru fyrir áttatíu árum síðan. Villtir minkar á Íslandi eru að stofni til aliminkar sem sluppu út úr búum. Fyrsta grenið fannst árið 1937. Fyrstu minkarnir voru fluttir hér inn fáum árum fyrr. Svo ábyrgð okkar er ljós. Maður einn sem uppvís var að því að aflífa hund með því að drekkja honum, var dæmdur til sektar og mátti ekki halda dýr í tilskilinn árafjölda – af því hann drekkti hundinum. Það telst grimmileg aðferð við aflífun. Við viljum gjarnan miða okkur við hin Norðurlöndin þegar við leitum viðeigandi viðmiða. DÍS hefur skoðað þetta. Almennt eru notaðar felligildrur, sem drepa strax, eða gildrur sem veiða lifandi dýr og þau síðar aflífuð. Hængurinn er sá að þessum gildrum þarf að sinna. Með ,,íslensku” aðferðinni þarf ekki að vitja gildranna nema nokkrum sinnum á ári, enda getur fjöldi minka legið í þeim drukknaður og þær enn tekið við… hvað finnst fólki um það að tíu drukknaðir minkar liggji í gildru, þegar ellefti minkurinn álpast inn? Þess finnast dæmi eins og sjá má í þessari frétt. Minkar eru lipur sunddýr og kafa mikið. Þeir geta haldið lengi í sér andanum í kafi og halda meðvitund lengur en t.d. hundur eða köttur. Auk þess eru þeir miklu nær um aðstæður sínar undir vatni og lesa þær vel. Við í DÍS teljum að þessa aðferð við veiðar á minkum verði að afleggja hið fyrsta og velja mannúðlegri aðferðir. Við teljum að þarna hafi íslenska löggjafanum orðið á. En þetta er jafnframt blettur á okkur öllum, svo lengi sem þetta er stundað hér á landi. Siðlegar og boðlegar aðferðir gangar ofar sjónarmiðum um hagkvæmni við veiðar. Um það þarf enginn að velkjast í vafa. DÍS. Comments are closed.
|