Dýraverndarsamband Íslands
  • Um félagið
    • Um DÍS
    • Stjórn DÍS
    • Lög DÍS
    • Ársskýrslur og aðalfundir
    • Dýraverndarinn
  • Starfsemi DÍS
    • Umsagnir DÍS
    • Bætt dýravelferð - skýrsla
  • Þarftu aðstoð vegna dýrs?
  • Styðja félagið
    • Gerast félagi
    • Dýraverndarar
  • Um félagið
    • Um DÍS
    • Stjórn DÍS
    • Lög DÍS
    • Ársskýrslur og aðalfundir
    • Dýraverndarinn
  • Starfsemi DÍS
    • Umsagnir DÍS
    • Bætt dýravelferð - skýrsla
  • Þarftu aðstoð vegna dýrs?
  • Styðja félagið
    • Gerast félagi
    • Dýraverndarar

Saga Dýraverndarsambands Íslands

Árið 1885 kom út allsérstæð bók á íslenskri tungu. Hún hét Dýravinurinn og var helguð dýravernd. Útgefandi var Dýraverndunarfélag danskra kvenna og var um að ræða þýtt rit, en formálann skrifaði Tryggvi Gunnarsson sem var bankstjóri Landsbankans lengi vel og hugsjónamaður mikill, ekki síst í þágu dýravelferðar. Tilganginn með bókinni sagði hann vera að ,,vekja hjá mönnum andstyggð á illri meðferð á dýrum og ennfremur að vekja velvild til þeirra og tilfinningu fyrir því, að menn hafi siðferðislegar skyldur gagnvart dýrunum‘‘. Samdist svo með honum og danska félaginu að Þjóðvinafélagið fengi bókina að gjöf og gaf félagið eftir það ritið Dýravininn út, annað hvert ár, eða allt til ársins 1916 þegar komin voru 16 hefti, undir ritstjórn Tryggva.
Nýtti hann bæði þýtt efni og leitaði fanga hjá ritfærum mönnum hérlendis, eins og skáldunum Grími Thomsen og Matthíasi Jochumsson. Ritið átti sívaxandi vinsældum að fagna með hverri útgáfunni og hefur ritið vafalaust haft áhrif á hugsanagang fólks á þessum tíma gagnvart dýrunum og vakið með því sívaxandi skilning, og með því undirbjó Tryggvi jarðveginn.

Stofnun félagsins
Það var þó ekki fyrr en árið 1914 sem félagskapur var stofnaður um hið brýna samfélagsmálefni, dýravelferð. Fyrir þrautseigju Ingunnar Einarsdóttur, húsfreyju á Bjarmastöðum, reis Dýraverndunarfélag Íslands á legg. Hún fór frá Pontíusi til Pílatusar við að fá menn til liðs við sig, en það var ekki auðfengið þar sem áhugi og trú manna var misjafn fyrir málaflokknum. Þann 13. júlí 1914 var stofnfundur félagsins haldinn og var þá ákveðið að kalla félagið Dýraverndunarfélag Reykjavíkur þar sem stofnstaðurinn var í Reykjavík. Fundarmenn ætluðu að fleiri félög myndu rísa um landið og síðar myndi verða myndað samband félaganna, en fundið var að þessu fyrirkomulagi og engin önnur félög kviknuðu eins og vonir stóðu til.
Á fyrsta aðalfundi félagsins árið eftir var því ákveðið að breyta nafninu og hlaut það nafnið Dýraverndunarfélag Íslands, þar sem það átti að starfa fyrir allt landið, en ekki aðeins þjóna málefninu í höfuðstaðnum. Á fundinum var kosin stjórn og fyrstu lög félagsins samþykkt, en formaður var kosinn Tryggvi Gunnarsson, sem hafði haldið kyndlinum á lofti í þrjá áratugi með ritinu Dýravininum. Hann lést tveimur árum síðar, 82 ára að aldri og ánafnaði félaginu nær allar eigur sínar, enda honum það afar hjartfólgið. Ingunn var kosin meðstjórnandi á fundinum og þrátt fyrir hennar háa aldur varð hún brátt lífið og sálin í öllum störfum félagsins, og átti frumkvæði að sumum stærstu og markverðustu framkvæmdum þess.

Dýraverndarinn
Þegar þarna var komið hafði útgáfu á Dýravininum verið hætt og ekkert málgagn til sem beitti sér fyrir dýravelferðarmálum. Ingunn bar fram tillögu þess efnis að félagið kæmi á stofn blaði og gæfi það út í þágu málefna sinna. Tillögu hennar var tekið nokkuð misjafnlega í fyrstu en hún og tengdasonur hennar, Emil Rokstad kostuðu að öllu leyti fyrsta tölublaðið sem kom út þann 15. mars árið 1915. Eftir hennar tillögu var blaðið nefnt Dýraverndarinn.
Við útgáfu hins nýja rits var byggt á því að Dýravinur Tryggva Gunnarssonar var bók.  Félagið gaf því út hvern árgang sem eina bók en skipti henni niður í nokkrar arkir sem gefnar voru út með nokkru millibili til þess að almenningur hefði fremur efni á ritinu. Blaðsíðutalið var þá í fyrstu örkinni og var það alls 96 bls þegar mest lét. Blaðið stóð ekki undir sér, en þó eru til heimildir um að útgáfan hafi borið sig a.m.k. eitt árið. Margir biðu spenntir eftir sérhverju blaði og lásu það með áfergju. Varð það vinsælt meðal landsmanna, sérstaklega fyrstu árin þegar hátt í 4000 manns voru áskrifendur að blaðinu. Blaðið kom óslitið út til ársins 1983, eða í 69 ár, en þá varð hlé á útgáfunni. Blaðið hóf göngu sína á ný árið 2012 en þá komu út 2 tölublöð í rafrænu formi. Það gladdi marga þegar það fréttist af endurútgáfu blaðsins á tímaritsformi árið 2013 á meðal þeirra sem mundu eftir því úr bernsku sinni. DÍS ætlar að gefa út eitt veglegt blað á ári, fremur en fleiri minni, og fá félagar í Dýraverndarsambandinu tímaritið sent heim til sín, enda innifalið í árgjaldinu.
Dýraverndunarfélagið hófst einnig strax handa við önnur hugsjónarmál sín, enda að mörgu að hyggja og engin ládeyða í starfi þeirra sem lögðu fram krafta fyrir félagið. Félagið er í eðli sínu hugsjónarfélag, eða góðgerðarfélag, fremur en hagsmunafélag. Farsælt starf þess byggði mjög á framtaki þeirra sem í stjórn sátu eða buðu fram krafta sína.

Lög um dýravernd
Eitt brýnasta verkefnið í upphafi var að koma á lögum um dýravernd. Félagið vann tillögu að frumvarpi til laga sem lagt var fyrir Alþingi og framunnið þar - og voru hin nýju lög um dýravernd staðfest í nóvember árið 1915. Þetta gerðist fyrir atbeina félagsins fyrst og fremst og var mjög merkur áfangi. Einnig barðist félagið fyrir nýjum lögum um bættar aðferðir við aflífun dýra og fleiru sem til bóta mátti vera. Aflífun dýra var á þessum tíma iðulega með hálsskurði, oft bara í porti á milli húsa.

Hið unga félag hafði strax á fyrsta og öðru ári náð góðum árangri um brýn mál og hafði sannarlega sýnt að þörf var fyrir það. Þessi fyrstu heildarlög um dýravernd innihéldu 5 greinar en til gamans má geta að núgildandi lög eru 49 greinar. Þessi fyrstu lög voru í gildi í 42 ár, eða þar til ný og endurbætt lög um dýravernd voru staðfest árið 1957. Einnig verður að geta þess að árið 1935 voru sett sérstök lög um geldingu húsdýra eftir talsvert þóf á Alþingi, en það var mikið baráttumál félagsins að fá þessi lög staðfest, að gripirnir yrðu deyfðir eða svæfðir á meðan gelding færi fram. Var það fyrir tilstuðlan stjórnar félagsins að frumvarp til laga um geldingar var lagt fram og var það eitt af mörgum skiptum sem félagið hafði áhrif á framgöngu mála við lagasetningu. Félagið kom einnig að lagabreytingum árið 1922, 1957, 1994 og nú 2013. Segja má að saga dýraverndarlaga á Íslandi sé samofin sögu félagsins, sem oft benti á það sem betur mætti fara og var oftar en ekki hvatinn að breytingum og lagagerð. Til þess þarf frumkvæði og þrautseigju og mikla vinnu. Félagið háði oft mikla baráttu við ráðherra sem áttu það til að sniðganga lögin þegar kom að frændum og sérajónum og haldlaust var oft eftirlit löggjafans. Engu að síður náðist strax á fyrstu árunum að gera aflífun mannúðlegri og sömuleiðis að flutningar búfjár, bæði innanlands og til útlanda urðu með betri hætti en áður hafði tíðkast. Félagið kom einnig að frumvarpi til laga um fuglafriðun og fuglaveiðar sem varð að lögum um miðja öldina svo eitthvað sé nefnt.

Fræðsla í barnaskólum
Í stefnuskrá félagsins kom fram að kenna ætti börnum að fara vel með dýr enda margt til í því að ,,lengi býr að fyrstu gerð“. Haldnir voru útbreiðslufundir í skólum og varð úr að dýraverndunarfélög voru stofnuð í nokkrum barnaskólum nokkurra bæjarfélaga og leitað var til samvinnu við kennara og presta um allt land varðandi málefnið.

Tunga - Sjúkraskýli og athvarf
Mikil vöntun var á sjúkraskýli fyrir dýr á þessum tíma og á aðalfundi félagsins árið 1917 kom hvatakona félagsins, Ingunn Einarsdóttir, með þá tillögu að félagið þyrfti að koma á stofn sjúkraskýli fyrir dýr og sömuleiðis húsnæði fyrir starfsemi félagsins. Hófst mikil fjársöfnun fyrir húsnæði og ári seinna varð úr að keypt var jörðin Tunga sem stóð innan lands Reykjavíkur. Hlutverk húsnæðisins var að hýsa skepnur aðkomumanna en mikill ferðamannastraumur var til höfuðstaðarins og fólk almennt ríðandi. Það var mikil vöntun á hýsingu fyrir hross, en algengt var að þau væru látin hírast í portum  hvernig sem viðraði. Á veturna voru oft mikil vandræði að útvega þeim fóður og húsaskjól. Vildi félagið bæta úr þessu ástandi hið snarasta. Vanhirt dýr voru einnig tekin inn til hirðingar úr bænum og úr umhverfi bæjarins og segja má að Tunga hafi verið fyrsti vísir að dýraathvarfi á Íslandi, en var hún jafnan kölluð Dýraverndunarstöðin í Tungu, eða Verndarstöðin. Hún varð fljótt vinsæl. Árið 1931 hýsti verndarstöðin til dæmis rúmlega 4000 hross, 409 nautgripi, 1800 kindur og 60 svín, talið í nóttum, með eða án gjafar. Það ár voru einnig geymdir 80 hundar og 90 kettir, 211 alifuglar og árið eftir bættust við kanínur. Af þessu má sjá að sannarlega hefur eignin í Tungu komið að miklum notum.
Rekstur verndarstöðvarinnar gekk vel fyrsta áratuginn en eftir 1930 tók hann að dala vegna breyttra samgangna, færri sóttu í hýsingu fyrir ferðahesta sem var rekstrargrundvöllur stöðvarinnar. Var ákveðið að breyta húsakynnum stöðvarinnar og varð þarna í raun til vísir að fyrsta dýraspítalanum, en í húsinu var innréttaður sérstakur sjúkraklefi þar sem hægt var að sinna bæði smáum og stórum skepnum. Dýraspítali þessi varð fljótt vinsæll og drýgðu menn tekjur stöðvarinnar með því að bjóða upp á hagagöngu fyrir hross.
Tunga var rekin til ársins 1937, en þá voru bifreiðar farnar að taka alveg við af hrossunum hvað samgöngur og vöruflutninga varðaði. Var því ákveðið að selja eignina sem var komin í rekstrarörðugleika, en ekki var heldur haldið nógu vel utan um reksturinn síðustu árin sem sýnir hversu áríðandi er að vanda til verka í slíku félagsstarfi. Mikil eftirsjá er að þessari eign, sem var um 10 hektarar að stærð á góðum stað þegar komið var til Reykjavíkur.
Félagið barðist einarðlega og lagði fram mörg kærumál gagnvart mönnum er uppvísir höfðu verið að því að halda horuð dýr eða annari illri meðferð á dýrum. Einnig fékk félagið því komið í lög að eyjan Eldey undan Reykjanesskaga var friðuð, en þar hafði verið gengið mjög á súlnabyggð. Mikið baráttumál var einnig útflutningur á hrossum, aðbúnaður og meðferð þeirra við flutninga.

Tvö félög
Þegar komið var fram á fimmta áratug síðustu aldar voru einstök mál í Reykjavík farin að sitja á hakanum. Miklar vangaveltur hófust um stofnun nýs félags sem yrði eins og regnhlífarsamtök fyrir þau dýraverndarfélög sem þá hafði verið stofnað til í landinu, eins og upprunalega hafði verið áætlað. Jafnframt töldu menn að þörf væri fyrir sérstakt félag í Reykjavík. Ákveðið var með ákvörðun aðalfundar árið 1959 að stofna tvö félög út frá Dýraverndunarfélagi Íslands sem fengu nöfnin Samband Dýraverndunarfélaga Íslands (SDÍ) og Dýraverndunarfélag Reykjavíkur (DR). Eignum, skyldum og ábyrgð var skipt á milli félaganna. Þannig fékk SDÍ tímaritið Dýraverndarann og umsjón með málefnum alls landsins og jafnframt aðildarfélaga, en DR átti að sinna sérstaklega málefnum í höfuðstaðnum. Aðildarfélög SDÍ voru á þessum tíma dýraverndarfélög í Garðshreppi, Akureyri, Hafnarfirði, Sauðárkróki og Reykjavík, en voru á tímum ýmist fleiri eða færri.
Þar sem ekki var talið framkvæmanlegt með góðu móti að breyta nafni Dýraverndunarfélags Íslands sem fyrir var í texta laga um dýravernd og texta laga um fuglaveiðar var ákveðið að Samband Dýraverndunarfélaga Íslands og Dýraverndunarsamband Íslands skyldi vera eitt hið sama. Sjóðir sem gefnir höfðu verið DÍ af þeim sem búsettir höfðu verið í Reykjavík var Dýraverndunarfélagi Reykjavíkur falið að varðveita. Samkvæmt þessu var Dýraverndunarfélagi Íslands ekki slitið, en starfsemi þess og eignir falið tveim félögum, sem héldu áfram að vinna að málefnum þess. Eins og áður segir tók SDÍ  við útgáfu Dýraverndarans og ætíð kom fram í honum hvað var efst á baugi hverju sinni. Helstu baráttumál á þessum tíma voru að hrinda í framkvæmd úrbótum til að koma í veg fyrir óhreinkun sjávar af völdum olíu og að efla dýraverndarstarfið um landið með því að fá trúnaðarmenn í flest pláss til að undirbúa jarðveginn, ef dýraverndarfélag var ekki starfandi þar fyrir. Nokkur aðildar-dýraverndarfélög urðu til í helstu bæjarfélögum sem sinntu þá sínu svæði hvert um sig. En þau stóðu oft veikum fótum og féllu síðar í gleymsku.

Ráð um dýravelferð
Dýraverndunarnefnd ríkisins, sem var forveri Dýraverndarráðs og var ráðherrum til ráðgjafar um málefni dýra, tók til starfa upp úr miðri síðustu öld. Félagið hefur ætíð átt fulltrúa í nefndinni. Í dag heitir nefndin samkvæmt nýjum lögum um dýravelferð 55/2013, Fagráð um velferð dýra. Hlutverk ráðsins er að veita Matvælastofnun faglega umsögn um álitamál varðandi dýr og einnig tilraunadýr.

Dýraverndarsamband Íslands – félögin sameinuð
Árið 1996-7 voru félögin sameinuð á ný með samþykki aðalfundar beggja og þá undir nafninu Dýraverndarsamband Íslands. Engin aðildarfélög starfa sem slík í dag, enda hefur landið minnkað með nýrri tækni, þar sem upplýsingar geta borist manna á milli á örskotsstund sem áður gat tekið nokkra daga. Meiri þörf var á slíkri deildarskiptingu í gamla daga. Dýraverndarsamband Íslands starfar í dag sem eitt félag fyrir allt landið, líkt og það lengst af gerði.

Dýraverndarmál
Af öðrum stórum málum má nefna Sædýrasafnið í Hafnarfirði sem starfaði á árunum 1969-1987.  Félagið hafði ætíð miklar áhyggjur af aðbúnaði dýra þar. Safn með þessu sniði yrði varla leyft í dag, en DÍS myndi auðvitað spyrna við fótum, ef loka ætti villt dýr inni við aðstæður sem þar voru. Sannarlega er það safn barn síns tíma.
Margir vita ekki að ormahreinsanir og lúsahreinsanir hunda voru hér áður stundum framkvæmdar þannig að hundarnir gátu verið nær dauða en lífi við aðfarirnar. Margir hundaeigendur tóku mjög nærri sér að skila hundum til ,,hreinsunar“, en þetta hefur nú heldur betur lagast. Reyndar var mikið deilt um hundahald í þéttbýli, bæði innan og utan félagsins, en að halda hunda sem selskapsdýr þekktist varla þá. Margt hefur lagast sem áður var með mun verra sniði og oft gleymist hvað mikill árangur hefur náðst í málefnum dýravelferðar. Sum mál verða þó alltaf á könnu félagsins, t.d. horfelli búfjár, ill meðferð selskapsdýra eða tillitsleysi gagnvart umhverfi villtra dýra.

Dýraspítali Watsons
Einnig verður nefna hér Dýraspítala Watsons en, SDÍ og DR komu að uppbyggingu hans og rekstri og þar rættist gamall draumur félagsins um almennilega aðstöðu til dýralækninga. Spítalinn var rekinn í samstarfi við m.a. Reykjavíkurborg, hestamannafélagið Fák, Hundavinafélag Íslands og fleiri. Mark Watson dýralæknir gaf félaginu húsið, sem staðsett var í Víðidal í Reykjavík og nokkur lækningatæki að auki. Reksturinn var svo m.a. fjármagnaður með fjársöfnun félagsins og aðkomu fyrrnefndra aðila.

Sigríðarhús
Reksturinn spítalans var þungur og rekstur Dýraverndarans einnig, sem raunar stóð aldrei að fullu undir sér. Aðstaðan var að lokum leigð út til dýralækna og því miður lagðist útgáfa Dýraverndarans í hlé upp úr 1980, en á þessum árum var verðbólgukreppa á Íslandi og erfitt umhverfi fyrir rekstur.
Þegar húsið í Víðidal var selt fyrir nokkrum árum hafði Sigríður Ásgeirsdóttir þáverandi formaður áður háð langa baráttu til að missa það ekki úr höndum félagsins. Er það því fyrir hennar tilstilli að húsnæðið hér að Grensásvegi varð að veruleika, en það var keypt fyrir fé sem fékkst fyrir gamla spítalann. Sigríður hélt félaginu á floti á þessum tímum ládeyðu og varðveitti sjóði þess til framtíðar. Í minningu hennar var því ákveðið að kalla húsið hér Sigríðarhús. Við vitum að það hefði glatt Sigríði mikið að vita að við hófum endurúgáfu á okkar gamla tímariti sem var henni afar kært.
Ólafur Dýrmundsson tók við formennsku að hennar ósk þegar hún lést árið 2007 og starfaði allt 2012. Hann endurreisti ýmsa innviði félagsins og sá um sölu hússins í Víðidal. Það er von okkar að þetta hús megi verða miðstöð málefna dýra og lyftistöng fyrir þau – félagið styður alla góða viðleitni dýrum í hag og m.a. er hægt að fá húsnæðið leigt gegn vægu verði fyrir atburði sem tengjast velferð og vegsauka dýra. Um leið og við minnust frumkvöðla okkar og stofnenda með þakklæti, lítum við jafnframt björtum augum til framtíðar og vonum að félagið megi enn vinna margt gott starf í þágu dýra.
 
  
 
 

DÝRAVERNDARSAMBAND ÍSLANDS   |   GRENSÁSVEGI 8, 108 REYKJAVÍK  |  DYRAVERND@DYRAVERND.IS
Picture
Picture