Yfirlýsing HRFÍ og DÍS vegna ákvörðunar Icelandair að hætta innflutningi gæludýra með farþegaflugi15/11/2024
Við, undirrituð hagsmunasamtök gæludýraeigenda og dýravelferðar, höfum þungar áhyggjur af ákvörðun Icelandair um að hætta að flytja gæludýr með farþegaflugi frá og með 1. nóvember 2024. Þessar breytingar skerða verulega möguleika gæludýraeigenda til að flytja dýr sín til og frá landinu. Afleiðingar þessara aðgerða hafa víðtæk áhrif á dýraeigendur, ræktendur og rekstur einangrunarstöðva, en allra mest á dýrið sjálft og velferð þess. Með þessari ákvörðun Icelandair er flutningur gæludýra til landsins verulega takmarkaður og er óraunhæfur kostur, þar sem dýr eru nú aðeins flutt með sérstöku cargo flugi aðeins frá einum flugvelli í Evrópu, Liege í Belgíu, og einum flugvelli í Bandaríkjunum, JFK í New York. Þetta fyrirkomulag er kostnaðarsamt, streituvaldandi og ótryggt fyrir dýrin sökum langra flutningsleiða á flugvöll og biðtíma þegar þangað er komið. Viljum við undirrituð leggja áherslu á að gæludýr teljast hluti fjölskyldunnar og þetta ástand getur gert það að verkum að fjölskyldur búsettar og/eða á ferðalagi erlendis með gæludýr sín sjá sér ekki fært að snúa aftur heim með þau. Jafnframt hefur þessi ákvörðun alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir ræktun og erfðafjölbreytni tegunda til framtíðar. Við skorum á Icelandair að endurskoða þessa ákvörðun og tryggja áframhaldandi mannúðlegan og hagkvæman möguleika á innflutningi gæludýra. Gæludýraeigendur þurfa að eiga raunhæfan valkost þegar kemur að flutningi ferfættra fjölskyldumeðlima sinna til landsins og þar liggur samfélagsleg ábyrgð Icelandair. Dýraverndarsamband Íslands (DÍS) Hundaræktarfélag Íslands (HRFÍ) Yfirlýsing DÍS og HRFÍ Comments are closed.
|