DÍS
  • Um félagið
    • Um DÍS
    • Stjórn DÍS
    • Lög DÍS
    • Ársskýrslur og aðalfundir
    • Skrifstofa DÍS
  • Starfsemi DÍS
    • Almenn stefna og nálgun DÍS
    • Ályktanir og áskoranir
    • Umsagnir DÍS
  • Fróðleikur
    • Algengar spurningar
    • Dýraverndarinn
    • Ýmis fróðleikur
    • DÍS í fjölmiðlum
  • Önnur starfsemi tengd dýrum
    • Félög tengd dýravelferð
    • Félög tengd dýrahaldi
    • Stofnanir
    • Lög og reglugerðir
    • Dýr og dýravelferð á samfélagsmiðlum
  • Styðja við dýravernd
    • Gerast félagi
    • Gerast styrktarfélagi í DÍS
    • Styrkja félagið beint
    • Að tilkynna illa meðferð
  • Um félagið
    • Um DÍS
    • Stjórn DÍS
    • Lög DÍS
    • Ársskýrslur og aðalfundir
    • Skrifstofa DÍS
  • Starfsemi DÍS
    • Almenn stefna og nálgun DÍS
    • Ályktanir og áskoranir
    • Umsagnir DÍS
  • Fróðleikur
    • Algengar spurningar
    • Dýraverndarinn
    • Ýmis fróðleikur
    • DÍS í fjölmiðlum
  • Önnur starfsemi tengd dýrum
    • Félög tengd dýravelferð
    • Félög tengd dýrahaldi
    • Stofnanir
    • Lög og reglugerðir
    • Dýr og dýravelferð á samfélagsmiðlum
  • Styðja við dýravernd
    • Gerast félagi
    • Gerast styrktarfélagi í DÍS
    • Styrkja félagið beint
    • Að tilkynna illa meðferð

Að vera dýravinur og neytandi dýra

Picture

Af hverju erum við feimin við sannleikann sem fylgir því að vera dýravinur og neytandi dýra?

Höfundur: Íris Lilja Ragnarsdóttir

Í þessum pistli langar mig að varpa ljósi á þær snúnu tilfinningar sem fylgt geta því að nota og neyta dýraafurða og vera jafnframt dýravinur. Ég mun varpa fram spurningum af ýmsu tagi sem snerta okkur sem ábyrgar og siðmenntaðar manneskjur og koma með hugleiðingar mínar sem svör við þeim. 

Ég vil að þið staldrið við spurningarnar og takið þær til ykkar, íhugið þær vel og vandlega og svarið þeim jafnvel í huganum. Ekki myndi það skemma fyrir ef þið bæruð síðan spurningarnar undir aðra í kringum ykkur, og kæmuð þannig annars lítið áberandi umræðu um dýravelferð af stað í samfélaginu. 


Hafið þið hugleitt að hve miklu leyti við notum dýrin? 

Leiðum hugann aðeins að þessu. Flest neytum við einhverra dýrafurða, að mismiklu leyti þó. Sumir borða mikið af kjöti og fiski, aðrir lítið, enn aðrir ekkert. Svo eru það hinar afurðirnar, mjólkurvörur og egg, svo ekki sé minnst á þessar dulkóðuðu eins og gelatín og ákveðin E-efni. Vitið þið hvað gelatín er? Það er einskonar bindiefni, flestir þekkja það í formi matarlíms, sem unnið er úr soðnum dýrabeinum. Þetta vita eflaust flestir en ekki býst ég við því að margir viti hvað efnin E631 og E635 standa fyrir? Það eru bragðaukandi efni sem eru unnin úr fiski eða kjöti. Síðan eru það vörurnar sem ekki beinlínis innhalda dýrafurðir, en dýr hafa verið notuð á einhvern hátt á einhverju stigi framleiðslunnar, eins og til dæmis sumar gerðir af bjór. Við framleiðsluna hafa sundmagar fiska verið notaðir til að sía ákveðin efni frá. 

En það eru ekki bara dýraafurðir í matnum og drykkjunum okkar. Förum úr eldhúsinu og yfir í baðherbergið. Þegar við sápum okkur erum við að nota dýr. Í langflestum sápum er efni sem unnið er úr dýrafitu. Þá eru ónefnd þau dýr sem mögulega voru notuð í tilraunir til að skera úr um hvort sápan sé hæf til notkunar fyrir okkur mennina. Flestar snyrtivörur, lyf og hreinsiefni hafa á bak við sig hóp af tilraunadýrum af ýmsum stærðum og gerðum. Færum okkur næst inn í svefnherbergi. Þar leynast dúnsængur og koddar, yfirleitt beint frá Kína eða Austur-Evrópu. 

Þau sem sáu myndina um gæsirnar sem sýnd var á RÚV kannast við hinn vafasama veruleika sem getur legið að baki framleiðslunnar. Endum að lokum inni í stofu en þar er ef til vill að finna leðursófa prýddan hekluðu ullarteppi, uppstoppaða rjúpu uppi í hillu, og gæru á gólfinu. Það er kalt úti þannig að ef við ætlum út úr húsi þá er eins gott að klæða sig vel. Við förum í vönduðu loðfóðruðu leðurstígvélin okkar, dúnúlpu með loðkraga – svona eins og nánast hver einasti Íslendingur á – kannski mokkavettlinga, ullarsjal og að lokum loðhúfu. Svo nennum við ekki að labba í þessu veðri þannig að við förum beint inn í bíl, þar sem jafnvel leynast leðursæti. 

Við neytum ekki bara dýra heldur notum við þau til afþreyingar líka. Öll höfum við einhvern tímann heimsótt dýragarð eða sædýrasafn, að minnsta kosti húsdýragarðinn hér heima. Sumir hafa farið á hestaleigu. Það er klárlega afþreying. Aðrir stunda sportveiði, annað hvort á þurru landi, við vötn, eða á sjó. Orðið sportveiði, segir okkur beinlínis að um afþreyingu sé að ræða. Sumir eiga gæludýr – það er ekki mitt að svara því hvort það flokkist undir notkun, en það er eitthvað sem er vert að hugleiða. 

Ég skrifa ekki þennan pistil til að dæma, heldur til þess að varpa ljósi á það að við getum varla farið í gegnum einn dag án þess að hafa notað dýr á einhvern hátt. 

Þetta leiðir okkur að næstu spurningu: 

Í ljósi þess hve mikið við notum dýr, þurfum við þá að velta fyrir okkur hvernig við förum með þau? 

Gandhi er sagður hafa sagt að hægt væri að meta þjóðir eftir því hvernig þær færu með dýrin sín. Hvernig metum við þá stöðuna á Íslandi? Sumir hugsa kannski með sér, “tja Ísland er mjög vel statt miðað við sumar aðrar þjóðir”. En er það svo? Það gildir þá að minnsta kosti ekki um öll dýr, nema að hugmynd hænsna um góðar aðstæður sé pínulítið búr sem þú yfirgefur aldrei og deilir með þremur öðrum hænum? Og kannski eru þá básar sem ekki er einu sinni hægt að snúa sér við í paradís líkast í augum sumra svína og nautgripa? Hvað veit ég? Við vitum svo sem ekki hvað dýrin eru að hugsa, en við vitum að þau eru skyni gæddar verur sem finna fyrir sársauka og hafa eðlislægar þarfir. 

Það minnsta sem við getum gert er þá að vega og meta þarfir þeirra út frá því sem við vitum um eðlislægt atferli þeirra… Og ef við stöldrum við og hugsum um það, þá veit það hvert mannsbarn að hænsni hafa ekki þörf fyrir frelsisskerðingu að svo miklu marki að þær geta ekki einu sinni breitt úr vængjum sínum og að svín og nautgripir kjósa ekki hreyfingaleysi í eins til tveggja fermetra stórri stíu. Við skulum ekki fela okkur á bak við þá hugmynd að allt sé betra á Íslandi – sumt er það, en annað er alveg jafnslæmt og enn annað jafnvel verra. Tökum til dæmis búrin sem tíðkast hér í eggjaframleiðslu, en frá og með næsta ári eru þau bönnuð í Evrópusambandslöndum. 

Þá kemur enn ein spurningin: 

Erum við sem neytendur að leggja blessun okkar yfir slæma meðferð á dýrum? 

Í dag er það svo að græðgi leiðir til þess að dýrin þjást. Neytendur kalla eftir ódýrari vöru sem leiðir til ódýrari framleiðsluhátta og það þýðir náttúrulega bara eitt fyrir dýrin – verri lífsskilyrði. Það kostar að búa vel að dýrum. Ert þú tilbúin/nn að borga fyrir það? Eins og ég kom inn á áðan þá notum við öll dýr á einhvern hátt á hverjum degi. Af þeirri ástæðu einni finnst mér að við ættum öll að láta okkur velferð dýra varða – þetta er eitthvað sem snertir okkur öll, eitthvað sem við eigum þátt í, þó svo að dýrin sem um er að ræða séu okkur ekki endilega sýnileg.

Síðasta spurningin kemur svolítið eins og þruma úr heiðskýru lofti: 

Hvers vegna höfum við þörf fyrir að fjarlægja okkur frá hinum dýrunum? 

Því menn eru auðvitað dýr. Valdameiri hópar geta níðst á þeim valdaminni, og segja má að í tilfelli mannsins gangvart dýrunum sé hann að níðast á þeim valdalausu. Við beitum valdinu á ýmsan hátt eins og ég hef þegar komið inn á: við ölum dýr til manneldis, við klæðumst dýraskinnum og feldum, við notum dýr í tilraunaskyni, og við notum dýr til afþreyingar. Annað sem við notfærum okkur er dálítið sem við höfum yfir að ráða en ekki þau – það er tungumálið. Við stjórnum orðræðunni í kringum dýr alfarið. Þau eiga sér enga málsvara, ef ekki okkur. Mér virðist sem maðurinn hafi mikla þörf fyrir að aðgreina sig frá hinum dýrunum, jafnvel upphefja sig yfir þau. Tungumálið endurspeglar þetta: við borðum en þau éta, við deyjum en þau drepast, við erum nár en þau eru hræ. Ef einhver gerir eithvað slæmt þá er hann algjör “skepna” eða sýnir af sér mikinn “skepnuskap”. Þetta hefur mér ætíð þótt fremur kaldhæðnislegt þar sem við notum þessi annars ágætu orð til að lýsa slæmum gjörðum sem menn framkvæma – ekki dýr. Við vörpum þannig okkar slæmu hegðun yfir á dýrin. 

Eins tölum við dýrin niður með því að nota þau til að uppnefna fólk: svín, belja, tík, asni. Af hverju höfum við þörf fyrir þessa aðgreiningu? Er það ef til vill vegna þess að við viljum ekki horfast í augu við gjörðir okkar gagnvart dýrunum? Afneitun er einmitt annað sem við stundum í gegnum tungumálið. Við reynum að milda gjörðir okkar gagnvart dýrunum, gjörðir sem við viljum helst ekki þurfa að horfast í augu við, með því að nota eufemísk orð – svokölluð skrauthvörf á íslensku. Hér mætti nefna orð eins og til dæmis að “lóga” eða “svæfa.” Er ekki tími til kominn að við hættum að fela okkur á bak við tungumálið og, þó það sé erfitt, setjum okkur í spor dýranna?Nú er það svo að við erum gædd þeim einstöku hæfileikum að geta hugsað á siðrænum nótum. 

Slæm meðferð á dýrum er vandamál sem fyrirfinnst á Íslandi. Um daginn varð ég vör við auglýsingaslagorð sem hljómaði einhvern veginn svona: “Engin vandamál, bara lausnir.” Það er að segja, vandamál eru ekki óhagganleg lögmál heldur eitthvað til að leysa. Nú eru sum dýr í vanda sem við komum þeim í og þau geta ekki leyst sig úr sjálf. Við vitum af þessum vanda. Ættum við að gera eitthvað í honum? 

Þessi pistill birtist í vefritinu innihald.is 6. desember 2011. Hann er byggður á erindi sem flutt var á málþingi Dýraverndarsambands Íslands um nýja dýravelferðarlöggjöf í Norræna húsinu föstudaginn 25. nóvember 2011. Ný dýravelferðarlög verða að öllum líkindum lögð fyrir Alþingi innan skamms. 

Ég hvet alla til að að fylgjast með framvindu mála og halda á lofti málstað dýranna. 
 

DÝRAVERNDARSAMBAND ÍSLANDS   |   GRENSÁSVEGI 8, 4. HÆÐ (gengið inn að aftan),108 REYKJAVÍK   |   SÍMI  552-3044   |   DYRAVERND@DYRAVERND.IS